Skartgriparæningi áfram í haldi

Ránið var framið 22. október sl.
Ránið var framið 22. október sl. mbl.is/Styrmir Kári

Karlmaður sem hefur játað að hafa framið rán í skartgripaversluninni Gullsmiðjunni í Hafnarfirði í október skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 15. janúar, en Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness.

Hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 23. október sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en síðar á grundvelli almannahagsmuna.

Sem fyrr segir, þá hefur maðurinn játað fyrir lögreglu að hafa framið rán í versluninni félagi við tvo aðra menn. Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, að maðurinn væri undir sterkum grun að hafa framið alvarlegt brot en háttsemi hans getur varðað allt að 16 ára fangelsi. 

Fram kemur í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að rannsókn málsins sé lokið og verði sent embætti héraðssaksóknara. Þremenningarnir eru allir taldir hafa skipulagt verknaðinn. Tveir þeirra, m.a. sá sem hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, fóru inn í verslunina með lambhúshettur fyrir andlitinu. Sá sem nú er fjallað um, var vopnaður exi og er hann sagður hafa skipað starfsmanni verslunarinnar að leggjast á gólfið og hlaupið á eftir henni með exi á lofti.

Mennirnir höfðu á brott með sér skartgripi að áætluðu verðmæti 1.950.200 krónur og yfirgáfu þeir vettvang á bifreið og ekið þeim til Keflavíkur þar sem þriðji maðurinn hafi tekið við þýfinu.

Þá er maðurinn sem hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald, grunaður um valdstjórnarbrot og tilraun til stórfelldrar líkamsárásar, með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 22. október 2015, er lögregla hafði afskipti af honum í Keflavík, skotið þrisvar sinnum úr gasbyssu í átt að fimm lögreglumönnum sem veittu honum eftirför og að hafa skotið fjórum til fimm sinnum úr byssunni upp í loftið á meðan lögreglumennirnir hlupu á eftir honum. Lögreglan segir ljóst að maðurinn sé hættulegur umhverfi sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert