Stíga skref í átt að neytandanum

Framkvæmdastjóri Netflix kynnti breytingarnar í gær í Las Vegas.
Framkvæmdastjóri Netflix kynnti breytingarnar í gær í Las Vegas. AFP

Talið er að um tuttugu þúsund íslensk heimili sé með aðgang að Netflix í gegnum ýmsar krókaleiðir. Þær hafa í meg­in­at­riðum snú­ist um það að fólk hef­ur orðið sér úti um er­lend­ar ip-töl­ur, ekki síst banda­rísk­ar, og skráð sig fyr­ir þjón­ust­unni í fram­hald­inu eins og það væri í viðkom­andi landi.

En nú er það liðin tíð þar sem Netflix tilkynnti í gær að nú væri hægt að nálgast þjónustuna í 130 nýju löndum, þar á meðal Íslandi. Á heimasíðu Netflix segir að mánuður­inn kosti 7,99 evr­ur eða sem nem­ur um 1.134 krón­um. Fyrsti mánuður­inn er hins veg­ar frír. 

Stafræn landamæri byrjuð að hverfa

Hörður Ágústsson, eigandi Maclands, fagnar komu Netflix til Íslands. Hann viðurkennir að hafa verið efins í fyrstu um hvernig efnisveitan myndi virka á Íslandi en hafi síðan gert sér grein fyrir því að með tilkynningu fyrirtækisins  í gær sé verið að taka fyrstu skrefin í átt að því að opna stafræn landamæri í skemmtanaiðnaðinum.

„Mér finnst þetta alveg stórkostlegt. Mér fannst þetta ekki spennandi tilhugsun fyrst en eftir að hafa melt þetta í gærkvöldi er ég gríðarlega sáttur,“ segir Hörður í samtali við mbl.is.

Hann segir að stærsta breytingin sé auðvitað sú að nú sé hægt að nálgast Netflix á Íslandi án krókaleiða. „En með þessu erum við að sjá stafræn landamæri byrja að hverfa í þessum iðnaði. Hingað til hafa verið hálfgerð gervilandamæri á milli landa þegar það kemur að þessu en þau hafa aldrei þjónað neinu, internetið er bara ekki þannig byggt upp.“

Hörður Ágústsson, eigandi Macland.
Hörður Ágústsson, eigandi Macland. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Munu ekki endilega „flytja sig til Íslands“

Hörður segir að koma Netflix í öll þessi lönd muni breyta viðhorfi neytandans enda fær hann með þessu mjög mikið úrval á góðu verði. „Þarna er verið að stíga flott skref í átt að neytandanum sem mér finnst flott. Verðið er mjög hagstætt og ég gæti ekki verið sáttari við stöðuna.“

Hægt er að horfa á Netflix í gegnum tölvu, spjaldtölvur, snjallsíma og með Apple TV og snjallsjónvörpum. Hörður segir Apple TV eina af vinsælustu vörunum hjá Maclandi og sér fyrir sér að flestir muni notfæra sér það til að horfa á Netflix.

Hann bendir þó á að talið sé að um 20 þúsund íslensk heimili séu með aðgang að Netflix í gegnum krókaleiðir og efast um að allir muni flytja sig yfir „til Íslands“.

„Ég ætla allavega að vera áfram með bandaríska áskrift og vera glaður með það. En aðalatriðið er það að ég get valið á milli svæða. Til dæmis ef ég vil horfa á Top Gear flyt ég mig yfir á breska Netflix. Það er ekkert mál að flakka þarna á milli.“

Úr­valið hjá Netflix í hverju landi fyrir sig er háð samn­ing­um við myndrétt­hafa og er því ekki ljóst hvaða efni nákvæmlega verður í boði í gegnum Netflix á Íslandi.

„En með þessari breytingu sjáum við hvert þetta er að stefna. Við erum ekki bara að tala um Ísland heldur allan heiminn.“

Þetta blasir við þegar íslenskir neytendur skrá sig á Netflix …
Þetta blasir við þegar íslenskir neytendur skrá sig á Netflix og er aðeins brot af úrvalinu. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert