Sútarahúsin verða íbúðahótel

Ráðgert er að opna kaffihús og vínbar í gamla portinu.
Ráðgert er að opna kaffihús og vínbar í gamla portinu. Tölvumynd/ARK Studio/Birt með leyfi

Eigendur íbúðahótelsins Reykjavik Residence undirbúa endurbyggingu á grónum reit við Veghúsastíg í miðborg Reykjavíkur. Uppbyggingin felur í sér gerð 11 nýrra smáíbúða og vínbars og kaffihúss sem verður opið almenningi. Áformað er að taka nýju herbergin og kaffihúsið í notkun um næstu áramót.

Félagið RR hótel ehf. á rekstur íbúðahótelsins. Þórður Birgir Bogason, framkvæmdastjóri RR hótel, segir verkefnið fela í sér fegrun baklóðar með endurbyggingu gamalla húsa. Verkefnið er nú í kynningu hjá skipulagsyfirvöldum í Reykjavík.

RR hótel kaupir vestari hluta Veghúsastígs 9a af Reykjavíkurborg. Félagið átti fyrir geymsluskúr sem einnig er skráður sem Veghúsastígur 9a.

Veghúsastíg 9a verður breytt í smáíbúðir, 25-35 fermetra. Þá verða húsin tvö með húsnúmerið Veghúsastígur 9a sameinuð með tengibyggingu sem verður stigahús. Við það breytist portið mikið eins og hér er sýnt á tölvuteikningu. Jafnframt verður útbúið kaffihús og vínbar í bakhúsi Veghúsastígs 7, sem hefur vinnuheitið Sútarinn.

Útgáfuhús Ragnars í Smára

Það er sögufrægt hús, hýsti áður svið Söngskólans í Reykjavík. Ragnar Jónsson, jafnan kenndur við Smára, rak þar smjörlíkisgerð og bókaútgáfuna Helgafell. Segir Þórður Birgir að í hótelíbúðum RR hótela í húsinu sé haldið upp á þessa sögu með ljósmyndum af Ragnari, Halldóri Laxness og öðru fólki sem tengist húsinu. Umrætt bakhús er nú sambyggt við annað húsið sem hefur númerið 9a. Mun afgreiðslutími kaffihússins taka mið af nærveru við íbúðahótelið og nágranna.

Þórður Birgir segir nafnið Sútarinn komið til af því að Bergur Einarsson, fyrsti lærði sútari landsins, var með verkstæði í portinu á fyrri hluta síðustu aldar.

Bergur byggði Veghúsastíg 9, sem þá var Vatnsstígur 7b, árið 1910. Áratug síðar var reist viðbygging við húsið og árið 1936 var allt húsið hækkað. Bergshús var byggt úr timbri og klætt með bárujárni. Verslun var á fyrstu hæð, íbúð á annarri og risið skiptist í geymslu og þurrkloft.

Fram til ársins 1925 var sútunarverkstæði Bergs það eina sinnar tegundar í Reykjavík. Eftir fráfall hans var stofnuð Sútunarverksmiðjan hf. úr verkstæði Bergs af nokkrum hluthöfum og rekin á sama stað, þar til nýr eigandi keypti hana 1945 og flutti í Brautarholt. Verkstæðinu var seinna breytt í íbúð.

Húsin með númerið 9a voru áður geymslur og þurrkgeymslur fyrir verkstæðið.

Heiðra minningu Bergs

Veghúsastígur 9 er nú eitt af íbúðahótelum RR hótel. „Við fundum gamla skiltið hans Bergs. Við ætlum að varðveita það og nota á einhvern hátt við þessa endurbyggingu,“ segir Þórður Birgir.

Með þessari viðbót og breytingu á Lindargötu 11 í íbúðahótel verður RR hótel með 49 íbúðir í útleigu. Félagið er líka með íbúðir á Hverfisgötu 21 og 45 og Veghúsastíg 7. Voru öll húsin endurnýjuð í sígildum stíl. Kostnaður við endurbygginguna á Veghúsastíg 9a er trúnaðarmál.

Norðan við húsin númer 9a er verið að byggja 21 íbúð á Lindargötu 28-32. Á syðri hluta lóðarinnar númer 28-32 verða fjórar íbúðir/vinnustofur sem sagðar eru henta listamönnum.

Húsið nr. 9 er gulmálað.
Húsið nr. 9 er gulmálað. mbl.is/Rax
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert