Farið var í gegnum öll leyfisveitingaferli, skipulag og fengið umhverfismat áður en gefið var út framkvæmdaleyfi fyrir fyrirhugaðar tilraunaboranir við Eldvörp á Reykjanesi. „Það er búið að fara eftir öllum leikreglum lýðræðisins.“ Þetta segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, í samtali við mbl.is. Þá bendir hann á að málið hafi verið unnið mjög vel í samstarfi við Grindavík og aðra sem tengjast því og að alls ekki verði hreyft við gígaröðinni á svæðinu, en mismunandi skoðanir um hvort ásýnd þeirra verði raskað hafa verið helsti ágreiningspunkturinn varðandi framkvæmdir á svæðinu.
Framkvæmdaleyfi var gefið út seint á síðasta ári og dugar í eitt ár. Ásgeir staðfestir að líklegast muni framkvæmdir hefjast á þessu ári, en þó hafi ekki verið tekin endanleg ákvörðun um það. Verið sé að ákveða hvar réttast sé að framkvæma fyrstu borunina, en 2-3 staðir koma til greina. Í heild er áætlað að tilraunaboranirnar geti orðið allt að fimm talsins, en í framhaldinu gæti tekið við virkjun svæðisins. Endanleg ákvörðun verður þó ekki tekin um það fyrr en niðurstöður rannsókna liggja fyrir.
Um talsverða fjármuni er að ræða fyrir hverja borun, en Ásgeir segir að almennt sé áætlað að ein borhola kosti rúmlega 600 milljónir og því kosti þrjár holur tæplega tvo milljarða. Samhliða borunum á svæðinu verða vegslóðar lagaðir og þeim breytt í vegi samkvæmt Ásgeiri. Meðal annars hefur vegslóði einn verið á svæðinu frá 1983 þegar fyrsta tilraunaholan var boruð, en hún kallast EG-2 og er rétt við tvo af gígunum í Elvarpar gígaröðinni.
Talsverð gagnrýni hefur komið fram frá áhugafólki um náttúruvernd vegna framkvæmdanna, en Ásgeir segir það að miklu leyti byggt á misskilningi. Segir hann að fyrirtækið leggi sig allt fram um að ganga af varúð um náttúruna og valda sem minnstum áhrifum. Segist hann skilja umhyggju fólks fyrir náttúrunni og hann hafi hana líka. „Mikið af þessum andmælum eru byggð á misskilningi,“ segir Ásgeir og bætir við að ef fylgst hefði verið með öllu umsagnar- og leyfisferlinu í kringum framkvæmdaleyfið gæti fólk séð hvað ætti nákvæmlega að gera.
„Fólk heldur að verið sé að fara að eyðileggja eitthvað sem ekki verður gert,“ segir hann og vísar þar til þess að ekki verður hreyft við gígunum sjálfum, heldur verði reynt að hafa borpallana eins litla og mögulegt er og þannig að þeir falli inn í umhverfið.
Í gegnum ákvörðunarferlið fyrir boranirnar segir Ásgeir að meðal annars hafi verið hætt við eitt borstæðið, því talið var að það hefði of mikið umhverfisrask í för með sér, m.a. með lagningu nýs vegs þangað. Þá hafi verið valið að nota fyrirliggjandi borplan á holunni sem er nú þegar á staðnum og stækka það í stað þess að byggja nýtt. Segir hann slíkt vera minniháttar inngrip á svæðinu og í takt við hugmyndir HS Orku um sem minnst rask.
Ef til þess kemur að ráðist verði í framkvæmdir verður ekki reist virkjun alveg við Eldvörp, heldur koma þrír staðir til greina. Fyrst ber að nefna samnýtingu með virkjuninni í Svartsengi, en talið er að slíkt gæti þó kostað 22% minni nýtingu á orku. Annar valmöguleiki er að virkjun verði reist á skilgreindu iðnaðarsvæði sem er örlítið austur af gígaröðinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Er iðnaðarsvæðið grámerkt á myndinni og næst Eldvörpum. Að lokum kemur til greina að reisa virkjun niðri við sjó og hafa hana sjókælda eins og Reykjanesvirkjun. Er þá horft til þess að hún verði rétt norðan við Arfadalsvík og fyrir ofan Nesveg. Er það svæði einnig grámerkt á meðfylgjandi mynd. Engin ákvörðun hefur hins vegar verið tekin um það.
Nokkuð hefur verið rætt um þá tengingu sem er á milli Eldvarpasvæðisins og Svartsengis, en það er virkjun í um fimm kílómetra fjarlægð sem HS Orka á einnig. Hefur því meðal annars verið haldið fram af andstæðingum framkvæmdanna að undir svæðinu sé sami jarðhitageymirinn og því séu fleiri borholur aðeins fjölgun á uppdælingu úr sama geyminum og muni þannig draga úr þrýstingi á svæðinu og koma í veg fyrir að það verði sjálfbært.
Ásgeir segir þetta með öllu rangt, því þótt vitað sé um tengingu milli Eldvarpa og Svartsengis sé of langt þar á milli svo hægt sé að tala um sama jarðhitageymi. „Það virkar ekki að bora bara í Svartsengi,“ segir hann ef nýta eigi svæðið í heild.
Tekur hann fram að sannarlega sé tenging á milli svæðanna, en talsvert sé um jarðhita í Eldvörpum sem aldrei væri hægt að nýta í Svartsengi og því sé um viðbótarorku fyrir HS Orku að ræða.
Nýlega kom fram í fréttum að þrýstingur í Hellisheiðavirkjun hafi lækkað hraðar en gert var ráð fyrir. Ásgeir segir að svo eigi ekki við um á þessu svæði og þannig hafi Svartsengi verið gríðarlega stöðugt svæði með vinnslusögu í um 40 ár. Þá hafi niðurdæling á jarðhitavökva einnig átt sér stað þar í talsverðan tíma og það skipti máli þegar horft er á lengra tímabil og endurnýjanleika svæðisins.
Segir hann að sérstaklega verði hugað að þrýstingi á svæðinu og þrýstingstap eigi ekki að gerast ef skynsamlega sé haldið á spilunum. Segir hann rannsóknarholurnar einmitt eiga að duga til að finna út úr því. Þannig verði þær prófaðar í allavega hálft til eitt ár áður en ákvörðun um vinnslu á svæðinu verði tekin.
Ásgeir tekur fram að möguleg framleiðsla á svæðinu sé hugsuð til að mæta fyrirsjáanlegri vöntun á raforku sem spáð hefur verið árið 2018 verði ekki meira virkjað. „Við erum að horfa til að mæta þeim þörfum sem samfélagið hefur um orku og útvega hana til þeirra sem þurfa,“ segir Ásgeir.
Aðspurður um áhrif á mögulegan ferðamannastraum á svæðinu segir hann að íslensk orkuver hafi hingað til þótt eftirsóttir staðir til heimsókna. „Þeim finnst það merkilegt við Ísland að orkuverin eru hrein og fín og ekki lokuð með girðingu og jafnvel er hægt að komast inn í þau,“ segir hann og bætir við að orkuiðnaður sé og verði áfram hluti af íslenskri ferðaþjónustu. Þannig telur hann að orkuvinnsla og aðgengi ferðamanna fari vel saman, en uppbygging muni einnig bæta vegasamgöngur að Eldvörpum.
Hliðarafurðir hafa jafnan sprottið upp í kringum jarðvarmavirkjanir og nærtækast er að nefna Bláa lónið sem er í næsta nágrenni við Eldvörp. Þá eru einnig talsverðir möguleikar í fiskeldi og fyrir gróðurhús, auk þess sem efnavinnsla hefur til dæmis átt sér stað með vörur Bláa lónsins og þá er framleitt metanól í verksmiðju Carbon Recyling International á Reykjanesi.
Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér eitthvað slíkt í tengslum við virkjun ef af verður segir Ásgeir að slíkt komi almennt ekki í ljós fyrr en vinnsla hefst og menn átta sig á þeim vökva sem kemur upp, bæði efnainnihald, hitastig o.s.frv. „Miðað við reynsluna eru gífurleg tækifæri í slíku,“ segir hann.