Lögregluþjónn fótbrotnaði á vettvangi

Það var nóg að gera hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í nótt og í gærkvöldi og voru verkin eins fjölbreytt og þau voru mörg að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um sinueld nærri þrettándabrennu í Gufunesi laust eftir sex. Fór lögregla og slökkvilið á vettvang. Skömmu síðar þurfti lögreglumaður á vettvangi að óska eftir aðstoð þar sem hann hafði runnið til og fótbrotnað. Var hún flutt með sjúkrabifreið á slysadeild.

Um miðnætti var tilkynnt um eld í ruslagámi við Foldaskóla.  Lögregla og slökkvilið á fór á vettvang. Fyrr um kvöldið hafði borist til­kynn­ing um eld í gámi við Borga­skóla í Grafar­vogi sem greiðlega gekk að slökkva. 

Kom aftur að sækja síma

Skömmu fyrir miðnætti var óskað eftir aðstoð lögreglu á veitingahús í miðborginni.  Tveir menn höfðu stungið þar af frá reikningi deginum áður en nú var annar þeirra kominn þangað aftur til að sækja síma sem hann gleymdi.

Á svipuðum tíma var tilkynnt um menn í slagsmálum með hníf í stigagangi  fjölbýlishúss  í  Kópavogi.  Voru tveir ungir menn í annarlegu ástandi handteknir við vettvang og vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Það voru svo sannarlega ekki síðustu slagsmál næturinnar. Um klukkan eitt var ölvaður maður handtekinn á veitingahúsi í Kópavogi þar sem hann var til vandræða og í slagsmálum við dyraverði.  Maðurinn er vistaður i fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Skömmu síðar var  tilkynnt um slagsmál i Austurstræti.  Var maður fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild með áverka á höfði.

Um klukkan þrjú var tilkynnt um menn í slagsmálum við dyraverði á veitingahúsi við Laugaveg.  Mennirnir voru síðar aftur að veitast að dyrverðinum í Austurstræti þar sem hann var á ferð eftir vinnu.  Einn árásaraðilinn náðist.

Vímuakstur, fíkniefni og vopn

 Þá var einnig nokkuð um ölvunar- og vímuefnaakstur. Laust fyrir tvö var bifreið stöðvuð við Gullinbrú.  Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum.

Tilkynnt var um ölvaðan ökumann á Sæbraut á þriðja tímanum.  Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar og er ökumaðurinn kærður fyrir ölvun við akstur.

Þá var bifreið stöðvuð í Kópavogi rétt fyrir fimm. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna.  Bæði ökumaður og farþegi eru grunaðir um vörslu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert