Kári Stefánsson segist ekki hafa gefið leyfi fyrir því að erindi hans á fundi Pírata um nýjan spítala yrði tekið upp og því dreift á netinu. Í myndbrotinu sagði Kári m.a. að það skipti engu „fokking máli“ hvar „svona andskotans“ spítali yrði reistur. „Hvernig vogið þið ykkur að gera það að deilumáli hvar spítalinn er reistur?“ spurði Kári á fundinum og lagði áherslu á að rekstur spítalans væri tryggður, burtséð frá hvar húsið myndi standa.
Í viðtali í sjónvarpsþætti Björns Inga Hrafnssonar, Eyjunni, í dag sagði Kári að myndbandsupptakan af erindinu væri athyglisverð fyrir margra hluta sakir. „Það er einn af Pírötunum sem tekur þetta upp án þess að fá leyfi mitt og setur þetta á netið, án þess að fá leyfi mitt. Þetta er dónaskapur. Þetta er dónaskapur að mörgu leyti því þarna er ég að tala yfir hópi fullorðins fólks,“ sagði Kári og bætti við að hann notaði annað orðalag þegar hann væri að tala við börn. „Þannig að þarna eyðileggur þessi Pírati, sem bauð mér að koma þangað, að minnsta kosti þau stílbrögð sem ég vil nota þegar ég tjái mig við fólk.“
Kári sagðist hins vegar standa við innihald erindis síns: Ekki skipti máli hvar spítalinn sé reistur.
Kári var í viðtalinu á Eyjunni spurður um skoðun sína á Pírötum. „Ég veit afskaplega lítið um Pírata. Ég held að það sé afskaplega lítið að vita um Pírata. [...] Þeir hafa svo sannarlega náð athygli og það er töluvert ferskur bragur á þeim en mér finnst vanta svolítið pólitíska fílósófíu [...] við skulum segja að ég eigi að minnsta kosti eftir að grafa upp þá pólitísku fílósófíu sem þeir byggja sína vinnu á.“
Kári var einnig spurður um þátttöku sína í þjóðfélagsumræðunni upp á síðkastið. Sagðist hann ekki hafa áhuga á að fara í framboð fyrir eitt né neitt. Spurður um forsetaembættið sagðist Kári vilja leggja embættið niður. „Það gegnir nákvæmlega engum tilgangi. Ég held að við eigum að koma upp barnaheimili á Bessastöðum, þetta er ágætis hús fyrir það.“
Kári sagði að framganga Ólafs Ragnars Grímssonar í Icesave-málinu hefði skipt máli en það þýddi ekki endilega að halda ætti embættinu. Kári sagði að frekar en að fela einum manni vald ætti að fela allri þjóðinni það.
Kári lýsti því yfir í þættinum að hann ætlaði á næstu dögum eða vikum að hefja söfnun 100 þúsund undirskrifta um að Ísland verji 11% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála.