Með efasemdir um viðskiptaþvinganir

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Við erum auðvitað bara með táknrænan stuðning við vestrænar þjóðir í þessu,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni spurður um viðskiptaþvinganir Rússlands gagnvart Íslandi. Sigurður sagði engan vera þeirrar skoðunar að við ættum ekki að mótmæla framgöngu Rússa gagnvart Úkraínu. Hins vegar væri eðlilegt að velta fyrir sér með hvað hætti rétt væri að gera það.

Spurður hvort hann væri andvígur þátttöku Íslendinga í refsiaðgerðum Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja gegn Rússum sagðist hann ekki vilja segja það. Sigurjón Egilsson, stjórnandi þáttarins, sagði þá að ráðherrann hefði þó greinilega efasemdir í þeim efnum og svaraði Sigurður Ingi því til að hann hefði almennt efasemdir um viðskiptaþvinganir og árangurinn af þeim. Vísaði hann meðal annars til áratugalangra viðskiptaþvingana Bandaríkjamanna á Kúbu sem hefði fyrst og fremst bitnað á almenningi.

Benti Sigurður á að refsiaðgerðir vestrænna ríkja gagnvart Rússandi snerust einkum um bann við vopnasölu til Rússlands og frystingu bankareikninga ákveðinna einstaklinga. Íslendingar væru hins vegar ekki að selja vopn til Rússa eða ættu umræddir einstaklingar bankareikninga hér á landi. Fyrir vikið væri stuðningur Íslands aðeins táknrænn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka