Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, telur Hæstarétt hafa horft fram hjá grunnreglum í neytendalögum þegar hann var dæmdur af Hæstarétti til að greiða lögmanni sínum, Karli Axelssyni, fyrir þjónustu sem Karl hafði látið aðstoðarmann sinn vinna að mestu. Segir Kári einnig að lendi menn í deilum við lögmenn út af vinnubrögðum þeirra séu lögmenn í raun alltaf dómarar í eigin sök. Þetta kemur fram í grein sem birtist eftir Kára í Morgunblaðinu í dag.
Kári leitaði til Karls um lögmannsþjónustu í ágúst 2011 vegna ágreinings er upp var kominn milli Kára og byggingarverktakans Fonsa ehf., sem tekið hafði að sér að ljúka uppsteypu á einbýlishúsi hans í Kópavogi samkvæmt verksamningi 18. júní 2010. Karl var á þeim tíma starfandi hæstaréttarlögmaður og einn af eigendum lögmannsstofunnar LEX.
Fékk Kári reikning upp á 154 klukkustundir aðstoðarmanns Karls og 4 tíma frá Karli vegna vinnunnar. Segst hann hafa mótmælt þessu þar sem hann hafi staðið í þeirri trú að hann væri að kaupa vinnu af Karli, en ekki aðstoðarmanni hans. Tekið hefði verið fram í byrjun að aðstoðarmaðurinn myndi aðstoða svolítið við málið, en Kári segir aðstoðarmanninn greinilega hafa unnið mestan hluta vinnunnar.
Allir dómarar í Hæstarétti voru vanhæfir til að dæma í málinu, en Karl starfar nú sem dómari við Hæstarétt. Þess í stað dæmdu í málinu þau Eggert Óskarsson, fyrrverandi héraðsdómari, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Sigríður Ingvarsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.
Niðurstaða dómsins er að sögn Kára í andstöðu við hugmyndina um vörumerkingar og að seljanda beri að upplýsa neytendur eins gjörla og kostur sé hvað það er sem hann er að kaupa. „Dómurinn er líklega fordæmisgefandi og veitir því lögmönnum meira frelsi en flestum ef ekki öllum seljendum vöru og þjónustu til þess að setja saman skilgreiningu á því hvað er keypt og hvað selt sem kemur ekki fram fyrr en á reikningi, eftir að viðskiptin hafa átt sér stað.“ Segir hann þetta í litlu samræmi við Neytendalögin.
Segir Kári dóminn miða við Lögmannalögin, en þau séu önnur sérlög sem séu eldri en neytendalögin og því ættu væntanlega yngri lög að gilda, í þessu tilfelli neytendalögin. Bendir hann á að í dómnum sé meira að segja gefið í skyn að lögmenn geti afhent mál viðskiptavina sinna hvaða löglærða einstaklingi sem er án þess að fá til þess heimild viðskiptavinarins, nema með fyrirfram gefnu banni viðskiptavinarins.