Fjárkúgun komin til héraðssaksóknara

Ólafur Þór Hauksson er nú héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson er nú héraðssaksóknari. mbl.is/Styrmir Kári

Fjárkúgunarmál sem beindist að forsætisráðherra er eitt þeirra mála sem var sent embætti héraðssaksóknara til meðferðar um áramótin. Að sögn Ólafs Þórs Haukssonar, héraðssaksóknara er málið í ákæruferli og hefur engin ákvörðun verið tekin.

Málið var í rann­sókn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu í rúma fimm mánuði en það var sent til rík­is­sak­sókn­ara 9. nóv­em­ber síðastliðinn. Þar var það til meðferðar til áramóta eða þegar það var sent yfir til héraðssaksóknara.

Syst­urn­ar Hlín Ein­ars­dótt­ir og Malín Brand voru hand­tekn­ar í lok maí, grunaðar um að hafa sent bréf í pósti til for­sæt­is­ráðherra og kraf­ist þess að hann greiddi þeim til­tekna fjárupp­hæð. Fjár­mun­ina átti að skilja eft­ir á ákveðnum stað sunn­an Valla­hverf­is­ins í Hafn­ar­f­irði. Þar hand­tók lög­regla kon­urn­ar.

Í sam­tali við mbl.is sagðist Malín hvorki hafa komið ná­lægt bréf­inu né send­ingu þess. Sagðist hún aðeins hafa bland­ast inn í málið vegna syst­ur sinn­ar. Sagði hún aðkomu sína að mál­inu hafa í raun aðeins verið þá að hafa verið með syst­ur sinni í bíl. Hafi hún að hluta vitað hvað til stæði en talið að eng­inn myndi taka málið al­var­lega þar sem aug­ljóst væri að veik mann­eskja ætti í hlut.

Nokkr­um dög­um síðar voru syst­urn­ar kærðar fyr­ir aðra fjár­kúg­un. Karl­maður kærði þær fyr­ir að hafa haft af sér 700 þúsund krón­ur. Syst­urn­ar sögðu þá pen­inga vera miska­bæt­ur vegna nauðgun­ar en maður­inn átti að hafa nauðgað Hlín. Eft­ir að maður­inn kærði fjár­kúg­un­ina kærði Hlín hann fyr­ir nauðgun. Það mál er í rann­sókn að sögn lög­reglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert