Formleg rannsókn á lögreglumanni

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Mál lögreglumanns sem sakaður hefur verið um að hafa átt í óeðlilegum samskiptum við brotamenn er nú til meðferðar hjá héraðssaksóknara, en Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir það í samtali við mbl.is. Maðurinn á meðal annars að hafa stýrt tálbeituaðgerð við Hótel Frón í fyrra sem klúðraðist, en hollensk kona sem hafði flutt inn fíkniefni ákvað að aðstoða lögreglu en var að lokum dæmd í ellefu ára fangelsi.

Eftir að mál mannsins kom fyrst upp var hann fluttur til í starfi úr fíkniefnadeild yfir í upplýsingadeild. Mun maðurinn vera með stöðu lögreglufulltrúa. Í umfjöllun Vísis undanfarna daga af málinu hefur meðal annars komið fram að Karl Steinar Valsson, sem var yfirmaður fíkniefnardeildarinnar frá 2007 til 2014, hafi ítrekað fengið upplýsingar um grunsemdir starfsmanna um meint brot mannsins. 

Hafa yfirmenn innan lögreglunnar ekki viljað segja hvort rannsókn hafi farið fram á störfum mannsins, en Karl Steinar tilkynnti samt samstarfsmönnum hans að ásakanirnar hefðu verið rannsakaðar. 

Ólafur staðfestir að málið hafi komið til embættisins í gær frá ríkissaksóknara, en um áramótin var embætti héraðssaksóknara sett á laggirnar og var eitt hlutverka þess meðal annars að rannsaka mál sem eru gegn lögreglumönnum.

Ekki er um að ræða sama mál og lögreglumannsins sem var settur í gæsluvarðhald rétt fyrir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert