Stendur við orð sín

Jens Garðar Helgason
Jens Garðar Helgason

Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, segist standa í grundvallaratriðum við orð sem hann lét falla um helgina varðandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum. En honum þyki leitt hafi gætt ónákvæmni í framsetningu hans. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann hefur sent frá sér.

„Utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu í dag (í gær) þar sem farið er ítarlega yfir ummæli sem ég lét falla í spjallþættinum Vikulokin á Rás 1 á laugardaginn síðastliðinn. Í fréttatilkynningunni eru einstök ummæli mín rakin og því haldið fram að þar fari ég ítrekað með rangt mál. Ég stend í grundvallaratriðum við þau orð sem ég lét falla í þættinum en þykir leitt að ónákvæmni hafi gætt í framsetningu minni. Stóra myndin er einfaldlega sú að þær byrðar sem munu falla á íslenskt atvinnulíf vegna þátttöku í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi eru gríðarlegar.

Löng yfirlýsing utanríkisráðuneytisins byggir að mörgu leyti á hártogunum og málkrókum. Þannig get ég nefnt að því er haldið fram að ég fullyrði að eingöngu sé um vopnasölubann sé að ræða. Þegar hið rétta er að ég vísa til þess að bannið snúist að stærstum hluta um bann við sölu á vopnum og það sé að mínu mati sniðið að daglegum viðskiptum Evrópusambandsins við Rússland.

Þá er í því haldið fram að ég hafi fullyrt að stjórnvöld hafi lýst því yfir að NATO aðild Íslands væri í uppnámi hverfi Ísland frá stuðningi við viðskiptaðagerðirnar. Þetta er annað dæmi um hreinan útúrsnúning  þar sem ég vísa einfaldlega til þess að í mínum huga séu það hæpin rök að vísa til þess, sem fleygt hefur verið fram í umræðunni, að NATO aðild væri mögulega í uppnámi í ljósi þess að um áratuga skeið hafi Ísland átt í farsælum tvíhliðaviðskiptum við Rússland þrátt fyrir að á köflum hafi verið áherslumunur í utanríkistefnu Íslands og Rússlands.
Hins vegar vil ég fá að nefna að við ráðherrann erum sammála um það að skaði einstaka fyrirtækja skipti ekki öllu máli í þessu samhengi. Fyrirtækin eru sterk og öflug alþjóðafyrirtæki með dreifða áhættu m.t.t. markaða og afurða. Þessu til stuðnings má nefna að stjórn SFS hefur ítrekað beðist undan því að ríkið komi til móts við skaða einstakra fyrirtækja með styrkjum heldur hvatt til þess að reynt sé að búa greininni gott rekstraumhverfi. Skaðinn sem við verðum fyrir varða hagsmuni Íslands og íslenska þjóðarbúsins, laun fólks, gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, skatttekjur, útsvar og fleira. Þetta snertir því ekki einstaka fyrirtæki heldur er málið mun víðtækra.

Ég geri mér grein fyrir að staðan er flókin og það þarf að taka tillit til fjölda hagsmuna. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa lagt áherslu á að mat á þessum hagsmunum fari fram sem og ítarlega umræða áður en ákvarðanir sem hafa jafn víðtækar og alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskan efnahag eru teknar. Þá höfum við bent á að hægt sé að koma okkar sjónarmiðum á framfæri með öðrum hætti en að taka þátt í tilteknum viðskiptaþvingunum sem kosta íslenskt þjóðarbú mun meira en flestrar aðrar þjóðir. 
Það er ekki hlutverk SFS að hafa skoðun á utanríkisstefnu Íslands, samtökunum ber hins vegar skylda til að tryggja að tekið sé tillit til hagsmuna íslensk efnahagslífs við ákvarðanatöku á grundvelli þeirrar stefnu.

Samtökin hafa síðan síðastliðið sumar lagt sig fram um að koma upplýsingum um þessa hagsmuni á framfæri við stjórnvöld og unnið í samvinnu við þau um að þær megi verða sem gleggstar. Nú liggja fyrir upplýsingar um hvert þetta tjón verður til skemmri tíma og hlaupa þær fjárhæðir á miljörðum eða tugum miljarða fyrir íslenskt efnahagslíf, erfitt er hins vegar að átta sig á hvert tjónið verður til lengri tíma þegar meta þarf virði tapaðra viðskiptasambanda. Það er nú hlutverkstjórnvalda að taka ákvörðun í þessu máli,“ segir í yfirlýsingu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert