RÚV-skýrslan kostaði 4,9 milljónir

mbl.is/Eggert

Samanlagður kostn­aður við gerð skýrslu um starfsemi og rekstur RÚV frá 2007 nam 4,9 milljónum króna. Ráðuneytið greiddi Svanbirni Thoroddsen 3,6 milljónir króna og Eyþóri L. Arnalds 750.000 kr. fyrir störf þeirra í þágu nefndarinnar.

Þetta kemur fram í svari Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn frá Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, þingmanns Vinstri grænna, um skýrsluna, sem var kynnt af hálfu ráðuneytisins 29. október sl.

Auk þess að spyrja um samanlagðan kostnað og greiðslu til nefndarmanna, spurði Bjarkey að því hvort fengin hefði verið aðkeypt ráðgjöf og sérfræðivinna við gerð skýrslunnar.

Í svari ráðherra segir, að kostn­aður umfram þá sérfræðivinnu, sem greidd var til Svanbjörns og Eyþórs hafi samtals numið 696.000 kr. Kostn­aðurinn var greiddur af ráðuneytinu.

Þá var spurt að því, hver mikið kynning skýrslunnar í Safnahúsinu og víðar hafi kostað.

„Kostn­aður vegna kynningar á niðurstöðum skýrslunnar nemur samtals 97.650 kr. Kostn­aðurinn er greiddur af ráðuneytinu,“ segir í svarinu.

Loks var spurt að því hvaða aðilar hefðu annast fjölmiðlaráðgjöf vegna kynningar á skýrslunni, hvað ráðgjöfin hafi kostað og hver beri þann kostnað

„KOM almannatengsl annaðist allan undirbúning og framkvæmd fundar í Safnahúsinu 29. október. Kostn­aður vegna þessa nemur 97.650 kr. sem ráðuneytið greiðir,“ segir í svari ráðherra.

Uppfært kl. 16.58:

Samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu var það KPMG sem fékk greiddar 3,6 milljónir vegna skýrslugerðarinnar, en Svanbjörn Thoroddsen vann verkið. Svar ráðherra verður uppfært til að endurspegla þetta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka