Annar lögreglumaður leystur frá störfum

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Halldór Sveinbjörnsson

Lögreglumaðurinn sem sakaður hefur verið um óeðlileg samskipti við brotamenn í störfum sínum hjá fíkniefnadeild lögreglunnar og var í framhaldi af því fluttur til í starfi hefur nú verið leystur frá störfum um stundarsakir meðan málið er til rannsóknar hjá héraðssaksóknara. Þetta staðfestir Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

Ekki er um að ræða sama mál og þar sem lögreglumaður var settur í gæsluvarðhald eftir að saksóknara barst í hendur upptaka af óeðlilegum samskiptum hans við brotamann. Sá var einnig leystur frá störfum á mánudaginn. Mennirnir eiga það þó sameiginlegt að hafa báðir starfað innan fíkniefnadeildar lögreglunnar.

Sigríður segir að í framhaldi af stöðunni núna séu mögulegar tvær niðurstöður. Önnur sé að maðurinn verði sýknaður eða að rannsókn leiði ekkert saknæmt í ljós. Segir hún að þá verði maðurinn væntanlega aftur settur í starfið. Hin niðurstaðan sé ef maðurinn verði fundinn sekur og í slíkum tilfellum sé viðkomandi væntanlega leystur varanlega frá störfum.

Fyrr í vikunni staðfesti Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, að mál mannsins væri nú til meðferðar hjá embættinu. Maðurinn er meðal annars sagður hafa stýrt tál­beituaðgerð við Hót­el Frón í fyrra sem klúðraðist, en hol­lensk kona sem hafði flutt inn fíkni­efni ákvað að aðstoða lög­reglu en var að lok­um dæmd í ell­efu ára fang­elsi.

Karl Steinar Valsson, sem var yfirmaður fíkniefnadeildar lögreglu frá 2007-2014 sagði frá því í Fréttablaðinu að hann hefði fengið upplýsingar um meint brot mannsins og sent greinargerð um það til yfirmanna sinna. Ekkert virðist þó hafa verið gert í því og engin rannsókn framkvæmd. Maðurinn var aftur á móti færður í starfi, en samstarfsmenn hans höfðu gert ítrekaðar athugasemdir við starfshætti hans.

Lýstu níu samstarfsmenn lögreglumannsins vantrausti á hann síðasta vor og vísuðu áhyggjum sínum til Friðriks Smára Björgvinssonar, sem þá var yfirmaður deildarinnar. Eftir að þeir fengu engin viðbrögð var farið með málið lengra til Sigríðar og var í framhaldinu ákveðið að færa fulltrúann til í starfi. Eins og fyrr segir hefur hann nú verið leystur frá störfum um stundarsakir vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert