5500 tonn dregin inn Sundin

Varðskipið Þór dró gámaskipið Samskip Hoffell inn Sundin í dag þar sem dráttarbátar Faxaflóahafna tóku við skipinu og drógu það síðasta spölinn að höfn. Sigurður Steinar Ketilsson, skipherra um borð í Þór, segir aðgerðina hafa gengið vel en hún er lengsta björgunaraðgerðin sem Þór hefur farið í.

Áhöfnina um borð í Hoffellinu segir hann hafa borið sig vel þrátt fyrir rafmagnsleysi um borð. Hún samanstendur m.a. af Hollendingi, Úkraínumönnum og Filippseyingum og Sigurður segir þá hafa kunnað vel til verka en það fyrst sem skipverjar Þórs gerðu þegar þeir komu að skipinu var að færa áhöfninni vatn.

Alls dró Þór Hoffellið, sem er 5500 tonn, 425 sjómílur en Landhelgisgæslan var kölluð til eftir að Samskip höfðu leitað tilboða í verkið. Í myndskeiðinu má sjá þegar Samskip Hoffell var dregið inn Sundin og þá er rætt við Sigurð Steinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert