Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun dagana 16.-17. janúar sækja stofnfund Innviðafjárfestingabanka Asíu. Á fundinum verður bankinn formlega stofnsettur, samþykkt verða helstu reglur um starfsemi bankans og fyrsta stjórn hans kjörin.
Fjármálaráðuneytið greinir frá þessu í tilkynningu.
Fram kemur, að ríkisstjórnin hafi í mars sl. ákveðið, að tillögu fjármálaráðherra og utanríkisráðherra, að Ísland myndi sækjast eftir því að vera meðal stofnaðila að Innviðafjárfestingabanka Asíu. Erindi þar að lútandi hafi verið samþykkt án athugasemda í apríl sl. af hálfu þáverandi stofnaðildarríkja. Stofnskjöl bankans hafi síðan formlega undirrituð af hálfu Íslands og fleiri ríkja hinn 29. júní 2015 í Peking.
„Innviðafjárfestingabanki Asíu er fjölþjóðlegur þróunarbanki sem mun styðja við aðgerðir til að efla innviði í Asíu sem er sá hluti heimsins þar sem hagvöxtur er hvað mestur. Þessi þróun kallar m.a. á stóraukna uppbyggingu innviða í Asíu til að auðvelda flæði vöru og þjónustu innan Asíu og milli Asíu og fjarlægari svæða, svo sem Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku. Fyrir liggur að í álfunni verður að eiga sér stað gríðarleg uppbygging samgöngukerfa, orkukerfa, fjarskiptakerfa o.fl.
Flest Evrópuríki, þ.m.t. öll norrænu ríkin, hafa unnið að stofnun bankans ásamt ríkjum Asíu. Aðild Íslands að innviðafjárfestingabankanum mun styrkja enn frekar góð samskipti Íslands og Asíuríkja og styðja við nýja vaxtarbrodda á viðskiptasviðinu sem getur þýtt aukin tækifæri fyrir íslenskt viðskiptalíf í Asíu, auk þess að gera Ísland sýnilegra á þessu stærsta vaxtarsvæði heimsins. Stofnaðild að bankanum mun færa Íslandi ákveðið forskot þar sem hún felur í sér beina aðkomu að samningaviðræðum um allan stofnanalegan og lagalegan ramma bankans, rekstur hans og forgangssvið og tryggir þannig eins og kostur er að tekið sé tillit til íslenskra hagsmuna strax í byrjun. Einnig munu stofnaðilar njóta sterkari atkvæðastöðu innan bankans en ríki sem verða aðilar að honum síðar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
„Í stofnsamningi bankans kemur fram að tilgangur hans sé að stuðla að sjálfbærri efnahagsþróun, auka verðmæti og bæta innviðatengingar í Asíu með fjárfestingum í innviðum og öðrum virðisaukandi geirum. Auk þess muni bankinn stuðla að svæðisbundinni samvinnu og samstarfi til að taka á áskorunum í þróunarmálum, með því að vinna í nánu samstarfi við aðrar fjölþjóðlegar og tvíhliða þróunarsamvinnustofnanir. Bankanum er í þessu skyni ætlað að stuðla að fjárfestingu fjármagns í opinberri eigu og einkaeigu í þróunarverkefnum á svæðinu, einkum þróun innviða og annarra virðisaukandi geira. Bankinn mun einbeita sér sérstaklega að verkefnum sem stuðla að hagvexti á svæðinu í heild með sérstöku tilliti til þarfa fátækustu ríkjanna. Bankinn muni jafnframt stuðla að einkafjárfestingu í verkefnum og fyrirtækjum sem styðja við efnahagslega hagsæld svæðisins. Starfsemi bankans er ætlað að byggja á grunngildum góðrar bankastarfsemi (e. sound banking principles) og er gert ráð fyrir að verkefni sem bankinn taki þátt í að fjármagna hafi jákvæð þróunaráhrif og skili eðlilegum arði.
Heildarstofnfé bankans mun nema 100 milljörðum Bandaríkjadala. Miðað er við að innborgað hlutafé stofnaðila nemi fimmtungi af þeirri heildarfjárhæð og að hún greiðist inn á fimm árum. Utan þessa stofnfjár mun bankinn alfarið fjármagna sig á markaði og án sérstakra ábyrgða frá stofnaðilum. Heildarskuldbinding Íslands varðandi stofnfé bankans nemur um 17,6 milljónum Bandaríkjadala eða 0,0179% af stofnfé sem samsvarar um 2,3 mia.kr. Atkvæðavægi Íslands verður 0,2778% sem er ríflega fimmtánfalt miðað við stofnfjárhlut Íslands. Fimmtungur stofnfjárins verður innborgaður en fjórir fimmtu hlutar stofnfjárins er innkallanlegt stofnfé,“ segir ennfremur.