Sigurður Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og Eiríkur Tómasson, dómari við Hæstarétt, tókust nokkuð harkalega á í flutningi markaðsmisnotkunarmáls Landsbankans fyrir dómstólnum í dag. Spurði Eiríkur Sigurð ítrekað út í tvö atriði sem telja má að skipti talsverðu máli um sekt eða sakleysi Sigurjóns Árnasonar, umbjóðanda Sigurðar og fyrrum bankastjóra Landsbankans, í málinu.
Sigurður hafði í flutningi sínum farið yfir málið, aðkomu Sigurjóns að því, mögulega vitneskju hans í ákveðnum atriðum og þar af leiðandi mögulega ábyrgð hans og fyrirmæli hans sem tengjast meintri markaðsmisnotkun.
Sigurjón sat meðal annars í fjármálanefnd bankans sem fékk upplýsingar vikulega um stöðu bankans í eigin bréfum. Sigurður var að fara yfir minnisblað sem hafði komið fyrir nefndina þegar Eiríkur spurði hann hvort þetta bréf sannaði ekki einmitt aðkomu Sigurjóns að ákvörðun í málinu og þar með væntanlega aðild að meintri markaðsmisnotkun.
Sigurður lét þetta ekki slá sig út af laginu og svaraði Eiríki því að svo væri ekki, heldur væri í því farið yfir aðkomu deildar eigin viðskipta að eigin viðskiptum í bankanum, en ekkert um ákvarðanir til breytinga á heimildum deildarinnar sem hún hafði þegar varðandi að eiga í eigin viðskiptum. Fylgdu nokkrar spurningar í kjölfarið frá Eiríki sem Sigurður svaraði.
Flutningur Sigurðar hélt svo áfram, en undir lokin óskaði Eiríkur eftir svari við einni spurningu. Vildi hann fá að vita af hverju bankinn hefði lagt svona mikla áherslu á að fara ekki upp fyrir 5% mörkin, en þar á hann við af hverju bankinn vildi ekki eignast meira en 5% hlut í sjálfum sér. Kallar það á flöggun á markaði, þar sem bankinn lætur vita af eignastöðu sinni. Sagði Eiríkur að miðað við málflutning verjanda í málinu hefðu flestir aðilar á markaði haft vitneskju um þessi miklu viðskipti bankans og ætti því ekki að koma neinum á óvart þó eignastaðan færi örlítið yfir eða undir 5% mörkin.
Sigurður svaraði því til að stefna bankans hefði verið að fara ekki yfir þessi mörk til að gefa ekki út nein merki á markaðinn sem gætu breytt viðhorfi fólks til fjárfestinga. „Skiptir það máli ef þetta er svona útbreidd vitneskja?“ spurði Eiríkur þá aftur. „Það skiptir máli að það sé regla á hlutunum,“ svaraði Sigurður.
Ítrekaði Eiríkur spurningu sína þrisvar sinnum áður en Sigurður svaraði því til að bankinn hefði ekki viljað fara yfir 5% mörkin heldur halda sig þar fyrir innan. Með þessu virðist Eiríkur hafa fengið svar við spurningu sinni og þakkaði Sigurði fyrir.