Laun starfsmanna Rio Tinto fryst

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Sam Walsh, aðalforstjóri Rio Tinto, segir forgangsmál ársins 2016 vera tvö, þ.e. að koma í veg fyrir banaslys og að hámarka lausafé. Til að ná fram síðarnefnda markmiðinu hefur Rio Tinto ákveðið að engar launahækkanir verði á þessu ári nema kveðið sé á um þær í lögum eða um þær samið sérstaklega.

Með öðrum orðum hefur verið ákveðið að frysta laun allra starfsmanna Rio Tinto, frá forstjóra og niður úr.

Kemur þetta fram í tilkynningu sem Walsh aðalforstjóri sendi starfsmönnum álversins í Straumsvík við upphaf árs og birt er á innri vef fyrirtækisins.

„Augljóst er að þetta á við um stjórnendur, yfirmenn og sérfræðinga hjá ISAL, svokallaða SMS-starfsmenn, aðra en verkstjóra. Þessir starfsmenn fá enga launahækkun í ár,“ segir í tilkynningu aðalforstjóra. Er þar einnig bent á að verkstjórar muni hins vegar fá þær hækkanir sem samið var um fyrr í vetur.

„Verið er að skoða hvernig þessi ákvörðun snertir kjaradeiluna sem staðið hefur yfir í rúmt ár. Sem kunnugt er lagði ISAL mjög þunga og mikla áherslu á það við verkalýðsfélögin að ná samningnum fyrir áramót, og framlengdi raunar frestinn til 6. janúar svo hægt væri að gera úrslitatilraun til þess.“

Í tilkynningu aðalforstjóra er vitnað til hans en þar segir hann þetta hafa verið „mjög erfiða ákvörðun. Ég er viss um að hún veldur ykkur vonbrigðum, eins og mér. En hún er nauðsynleg í ljósi markaðsaðstæðna. Ákvörðunin endurspeglar ekki þá miklu vinnu og erfiði sem allir hafa lagt af mörkum til fyrirtækisins.“

Ættu að ganga að öllum kröfum Rio Tinto

Gylfi Ingvarsson, talsmaður starfsmanna í Straumsvík, segir óljóst hvaða áhrif þetta hefur á þá stöðu sem uppi er í kjaradeilunni. „En þeir voru búnir að segja okkur það að ef við gengum ekki að öllum þeirra kröfum þá kæmi annað og verra frá höfuðstöðvunum. Og það virðist vera komið í ljós,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Spurður hvort búið sé að boða til fundar vegna kjaradeilunnar kveður Gylfi já við. „Það er búið að boða fund hjá sáttasemjara næsta föstudag [22. janúar] klukkan 10. Það er í samræmi við þennan 14 daga frest.“

Fjórir starfsmenn Rio Tinto létust í fyrra

Þegar vikið er að hinu forgangsmáli Rio Tinto, þ.e. að koma í veg fyrir banaslys, er þess getið að fjórir starfsmenn fyrirtækisins hafi látið lífið við störf sín á seinasta ári. Vill Walsh að árið 2016 verði hið fyrsta í sögu Rio Tinto sem er án banaslysa.

„Enginn ætti að láta lífið við störf sín hjá Rio Tinto,“ er haft eftir Walsh. 

Segir hann einnig mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir þeirri stöðu sem álfyrirtæki standa frammi fyrir nú og að horfur á markaði „benda til að 2016 verði enn erfiðara en liðið ár“ með áframhaldandi lækkun á markaðsverði.

„Við verðum að vera sá framleiðandi sem hefur lægstan kostnað og mestu hagkvæmni allra keppinauta okkar í sama geira. Allt sem við gerum verður að taka mið af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert