Saksóknari í markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans hefur komist að nýju lögmáli í markaðsviðskiptum og ætti að fræða sænska ríkið og íslenska fjárfestingafélagið Hagamel um hvernig hægt sé að selja stóran hluta hlutabréfa í ákveðnu félagi á opnum markaði án þess að það hafi áhrif á markaðsverð félagsins. Þetta sagði Reimar Pétursson, verjandi Sindra Sveinssonar, eins hinna ákærðu í málinu.
Í málflutningsræðu sinni fór Reimar yfir ýmsar ástæður þess að Hæstiréttur ætti að staðfesta dóm héraðsdóms þar sem Sindri var sýknaður. Eins og aðrir verjendur í málinu gagnrýndi hann tölulega framsetningu ákæruvaldsins í málinu, en ákæruvaldið lagði meðal annars fram mikið magn gagna sem sýndu sölu og kaup á hlutabréfum sem bankinn átti viðskipti með sjálfur.
Sagði Reimar eins og fleiri verjendur að þarna væri horft framhjá stórum hluta viðskiptanna sem áttu sér stað utanþings, en gögnin ná bara til paraðra viðskipta í kauphöllinni. Sagði hann útreikninga út frá þessu því vera gallaða.
Þá tók hann fram að dómurinn yrði að skoða mál hvers og eins hinna ákærðu í málinu og vísaði til dóms í svokölluðu Nató-máli frá 1950, en þar voru 24 menn kærðir fyrir þátttöku í óeirðum vegna mótmælanna við Alþingishúsið árið 1949 þegar tilkynnt var um aðild Íslands að Nató. Sagði Reimar að í þeim dómi hefði dómstóll tekið þátt hvers og eins og greint hann og komist svo að niðurstöðu fyrir hvern og einn, en ekki dæmt þá sem hóp. Þetta þyrfti líka að gera í þessu máli.
Reimar rifjaði svo upp orð ákæruvaldsins um að einfalt væri að selja stóra hluti í félögum í pöruðum viðskiptum og fá fullt verð með því. Sagði Reimar að þetta væri mjög áhugavert í ljósi þess sem væri almenn þekking á markaði hingað til. Þá sagði hann að saksóknari ætti væntanlega að fræða félagið Hagamel og sænska ríkið um þetta nýja lögmál. Benti hann á að sænska ríkið hefði nýlega selt stóran hlut í Nordea bank og hafi þurft að gefa 7% afslátt þar sem mikið magn bréfa væri að fara á markað á sama tíma. Þá hafi íslenska félagið Hagamelur þurft að gefa 2,5% afslátt af verði Haga þegar þeir seldu stóran eignarhlut sinn í félaginu.
Rifjaði Reimar upp að í framhaldi af þessum sölum hafi hlutabréfaverð bankans og Haga lækkað talsvert. Það væri því ekkert furðulegt að bankinn hafi átt í viðskiptum utanþings þegar um stærri kaup eða sölur var að ræða, rétt eins og margir aðrir aðilar á markaði gera.