Fulltrúi utanríkisráðuneytisins heimsótti í gær íslenska parið sem situr í fangelsi í Fortaleza í Brasilíu grunað um smygla á kókaíni, samkvæmt heimildum mbl.is. Hlutverk fulltrúans er að kanna aðstæður og reyna að tryggja fólkinu réttláta málsmeðferð, að sögn ráðuneytisins.
Parið var handtekið á móteli í Fortaleza 26. desember með umtalsvert magn af kókaíni í fórum sínum. Íslendingum var í fyrstu haldið í fangageymslu alríkislögreglunnar en voru fluttir í alríkisfangelsi í síðustu viku, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Brasilíu.
Þarlend lögregluyfirvöld segja að fulltrúi íslenska utanríkisráðuneytisins hafi heimsótt parið í gær og fengið upplýsingar um mál þeirra. Alríkislögreglan hafi veitt fulltrúanum alla sína aðstoð.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, staðfestir að ráðuneytið hafi sent fulltrúa sinn til Fortaleza. Hlutverk hans sé að kanna aðstæður og reyna að tryggja fólkinu réttláta málsmeðferð. Ekki liggi fyrir hversu lengi fulltrúinn verði á staðnum en það fari eftir því hvernig verkefnið sækist. Hún segist ekki geta tjáð sig efnislega um mál fólksins né líðan þess.
Fólkið gæti átt yfir höfði sér 5-15 ára fangelsi vegna fíkniefnasmygls, að sögn lögreglunnar ytra. Karlmaðurinn er 26 ára gamall og konan er tvítug.