Vill þjóðbraut á Bessastaði

Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur.
Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Ég fór af stað strax um áramótin og setti upp síðu og lét ljós mitt skína. Þá tók ég einnig upp nokkur myndbönd þar sem ég útskýri hvað ég er að hugsa og til þess að fá aðra til þess að hugsa,“ segir Elísabet Jökulsdóttir forsetaframbjóðandi um fyrstu vikurnar í hlutverki forsetaframbjóðanda. 

„Nú undanfarna viku hef ég verið í Garði á Suðurnesjunum þar mér var boðið á listahátíð sem fer hér fram. Þar hef ég meðal annars verið með nokkra gjörninga. Ég hef því tekið smá pásu í framboðinu en ég var nú samt að spá í að banka uppá hjá einhverjum í hérna og vita hvort þau vilji bjóða mér í framboðskaffi og taka púlsinn á fólkinu,“ segir Elísabet.

„Fólk hefur tekið framboðinu vel finnst mér, það hefur ekki mikið verið rætt um þetta vegna pásunnar sem ég er í.“

Nokkrir hafa tilkynnt um framboð sitt og aðrir tilkynnt um að þeir munu ekki bjóða sig fram. 

„Ég hef ekkert hitt hina frambjóðendurna, þetta er auðvitað allt saman mjög nýtt. Mér fannst leiðinlegt að heyra að Jón Gnarr ætlar ekki fram. Það hefði verið gaman að keppa við hann, við hefðum kannski farið bara saman á Bessastaði sem tveir forsetar. Annars er ég sem stendur tölvulaus og hef því lítið fylgst með fréttum síðustu vikurnar en ég kem í bæinn á morgun.“

Elísabet segir fólk þó almennt hafa mikinn áhuga á forsetakosningunum. 

„Hér í Garðinum og í Keflavík virðast allir vita að ég er í framboði, það finnst mér jákvætt. Ég var stödd í heita pottinum hér og þar var mér fært heitur kaffibolli. Það var mjög notalegt.“

„Best væri ef ég fæ 51% atkvæða“

Sú umræða hefur sprottið upp um að ef margir gefa kost á sér í embættið gæti sigurvegari kosninganna haft lítið hlutfall atkvæða á bakvið sig.

Elísabet hefur litlar áhyggjur af því.

„Er ekki bara best að fylgja reglunum eins og þær eru. Þetta kemur allt í ljós. Þetta eru svolítið skrýtnar reglur og það hafa sjaldan verið margir frambjóðendur í framboði. En það er alveg ljóst að ef það eru færri í framboði þá eru meiri líkur á að  sigurvegarinn fá um helming atkvæða. En það besta væri auðvitað ef ég fæ 51% atkvæða og hinir skipta afganginum á milli sín á eftir mér. En annars kemur þetta allt í ljós.“

„Forsetinn á að sjá fólk eins og það er í raun og veru“

Elísabet segir það skrýtna tilfinningu að vera allt í einu komin í hlutverk frambjóðanda. 

„Stundum vaknar maður upp og spyr sig: Var ég í alvöru að bjóða mig fram sem forseta? Þetta er samt bara eins og að fara í vinnuna. Stundum nennir maður því ekki en gerir það samt. Annars eru nú bara tvær vikur liðnar af framboðinu en maður er samt farin að sjá ýmsa hluti í nýju ljósi.

„Ég var til dæmis á myndlistasýningu hér í Garðinum og þar tók ég eftir myndum af konum. Sterkum íslenskum konum. Með andlitið sem horfir alltaf fram á veginn. Konur sem hafa átt öll þessi börn og barist. Ég sá þessar konur í nýju ljósi, eins og hetjur þrátt fyrir að við séum svo einangruð langt úti í hafi.“

„Þetta er það sem mér finnst forsetinn eigi að gera, sjá fólk eins og það er í raun og veru. Ef þú býður þig fram í hlutverk sem sameiningartákn íslensku þjóðarinnar, það er ekkert smáhlutverk.“

Trampólín á Bessastaði

En hver eru helstu baráttumál Elísabetar?

„Ég veit nú ekki hvort ég eigi að vera að berjast eitthvað. Ég vil nú fyrst og fremst hafa það huggulegt á Bessastöðum og geta haft góð laun og svo mun ég bjóða öllum þangað. Bessastaðir eiga að vera opnir og mikil traffík af fólki. Þetta á ekki bara að vera hús úti í fjarska heldur á að liggja þjóðbraut þangað.“

„Þjóðin á að fá að vera þarna og segja sína sögu. Þetta á að vera eins og samkomutorg með trampólín handa börnunum. Ekki kóngabústaður eins og þetta er búið að vera.“

Á meðal frambjóðenda og þeirra sem orðaðir við framboð eru þó nokkrir rithöfundar. Hvað telur Elísabet að sé ástæðan fyrir því?

„Rithöfunum hefur alltaf verið gert hátt undir höfði á Íslandi. Annars hef ég ekki skýringu á því. Fyrir mitt leiti þá gæti ég alveg eins séð fyrir mér að barn væri forseti, eða að embættið yrði lagt niður.“

En rithöfundar eru til dæmis mjög oft inni í höfðinu á sér. Ég reyni sjálf að dansa svolítið og verða þannig betri rithöfundur en allir aðrir.

Vill ferðast um landið

Hvernig líta komandi mánuðir út fyrir Elísabetu?

„Mig langar til þess að flakka svolítið og hitta fólk, það er mjög gefandi. Ég fór um daginn í Garðskagavita og hitti þar vitavörðinn. Hann sagði mér til dæmis að fara ekki í framboð. Að ég væri góð listakona og að ég væri bara að eyðileggja fyrir mér með því að fara í framboð.“

„Það fannst þetta skemmtilegt, að vera stödd á útnára íslands og hitta þar vitavörð sem er búinn að vera að pæla í þessu öllu saman fyrir mig og hefur sterkar skoðanir.“

„Næst liggur ferð mín á Langanes og síðan í Súgandafjörð og Hornafjörð. Ég ætla að byrja á hornum landsins. Svo ætla ég að flakka um allt landið, ég hef lítið ferðast undanfarin ár. En fólk er bara svo merkilegt. Fólk er búið til úr sögunni sinni og einhverju skrýtnu og pólitíkinni og kjörum sínum,“ segir Elísabet.

Elísabet hitti vitavörð í Garðskagavita sem hafði miklar skoðanir á …
Elísabet hitti vitavörð í Garðskagavita sem hafði miklar skoðanir á framboði hennar. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka