Nefndu ekki Guðmund

Fortaleza í Brasilíu.
Fortaleza í Brasilíu. Kort/Google

Stúlkan sem er í haldi í Fortaleza í Brasilíu hefur nú verið flutt í kvennafangelsi, að því er RÚV segir frá. Fjölskylda hennar segir ekki rétt sem fram hefur komið að hún og kærasti hennar hafi sagt við yfirheyrslur að Guðmundur Spartakus Ómarsson væri einn valdamesti eiturlyfjasmyglarinn á svæðinu.

Að því er fram kom í kvöldfréttum RÚV hefur fjölskylda stúlkunnar ráðið lögfræðing í Brasilíu, sem fékk aðgang að lögreglugögnum sem voru þýdd með aðstoð frá utanríkisráðuneytinu. Þar kemur nafn Guðmundar hvergi fram.

Faðir stúlkunnar sagði í samtali við RÚV að fréttir um annað gætu mögulega stofnað dóttur sinni í hættu en meint ummæli parsins við yfirheyrslur voru höfð eftir lögregluyfirvöldum í Brasilíu.

Í samtalinu við RÚV sagði faðir stúlkunnar að ástandið í kvennafangelsinu virtist bera betra en víða annars staðar og að stúlkan bæri sig vel. Málið hefði hins vegar lagst þungt á fjölskylduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert