Sömdu Hagar frumvarp Vilhjálms?

„Þetta er eitt púsl af mörgum hjá mér í þeirri baráttu að láta ríkið einbeita sér að því sem það á að vera að þjónusta en ekki nýta fjármuni og tíma sinn í eitthvað sem aðrir geta gert betur,“ sagði Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Í máli sínu vísar þingmaðurinn í svonefnt áfengisfrumvarp sem hann hefur lagt fyrir Alþingi, en auk hans var Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, gestur þáttarins. Sá fór ekki blíðum höndum um þingmanninn og frumvarp hans, en Kári hélt því meðal annars fram að Vilhjálmur hefði ekki samið frumvarpið - heldur verslunarfyrirtækið Hagar.

„Hvað segir þú Vilhjálmur við því að ég varð fyrir því óhappi að labba inn í verslunarmiðstöð í gær og rakst á einn af kollegum þínum, þingmann Sjálfstæðisflokksins, sem hélt því fram er við röbbuðum um þetta að þú hefðir ekki skrifað þetta frumvarp heldur Hagar,“ sagði Kári og hélt áfram:

„Og benti á að nú væri farið að undirbúa áfengissölu í Hagkaupum og hann hélt því fram bókstaflega, þessi kollegi þinn, að þú værir á mála hjá aðilum sem vildu selja áfengi í matvöruverslunum. Mér fannst þetta dálítið ljótt og ég trúi því ekki.“

Vilhjálmur var snöggur til og sagðist ekki trúa því að þetta væri þingmaður Sjálfstæðisflokksins - sá hlyti að koma úr röðum Framsóknarflokksins.

„Þingmenn Framsóknarflokksins hafa orðað það við mig að þetta sé kallað „Hagafrumvarpið.“ Ég þekki engan í Högum og hef aldrei talað við neinn þar,“ sagði Vilhjálmur og benti á að hann hafi ásamt nefndarritara þingsins samið umrætt lagafrumvarp.

„Að þessi málflutningur sé uppi sýnir hversu gott frumvarpið er og hversu mikill stuðningur er [við það]. Að þetta sé eini málflutningurinn sem er hægt að hafa gegn því - að einhver verslunarmiðstöð sé að þessu,“ sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka