Deildu um styrki frá útgerðarfélögum

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Til talsverðra umræðna kom á Alþingi i dag í kjölfar þess að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega þau ummæli Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Pírata, í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi að þingmenn sem töluðu gegn þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi hefðu margir þegið háar fjárhæðir frá útgerðarfyrirtækjum í prófkjörum.

„Svona ummæli eru auðvitað ekki svaraverð en segja allt um hver staða Pírata og háttvirts þingmanns Birgittu Jónsdóttur er í þessari umræðu,“ sagði Ásmundur. Áður hafði hann gagnrýnt harðlega í ræðu sinni þátttöku Íslendinga í viðskiptaþvingununum gegn Rússlandi. Þar væri miklum hagsmunum fórnað til þess að vera í slagitogi með Evrópusambandinu.

Birgitta bað um orðið undir liðnum fundarstjórn forseta og vísaði í upplýsingar um opinberarr fjárframlög til þingmanna sjálfstæðisflokksins í prófkjörum þeirra. Þar væri Ásmundur efstur á blaði með mikla fjármuni frá útgerðarfyrirtækjum. Ásmundur tók til máls á nýjan leik og sagðist aldrei hafa verið handbendi útgerðarinnar eins og Birgitta væri að væna hann um.

Ásmundur sagði ennfremur að engin launung væri á þeim stuðning sem hann hafi fengið fyrir síðasta prófkjör. Hann hefði samkvæmt eigin minni fengið 100 þúsund krónur frá einu útgerðarfélagi. Enginn hefði bankað í öxlina á honum beðið um eitthvað fyrir slíkan stuðning. Sagði hann skammarlegt af Birgittu að væna þingmenn um slíkt.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka