Ekki bara fyrir ungar hvítar konur

Salvör fremst í flokki ásamt Hjalta og öðrum skipuleggjendum göngunnar.
Salvör fremst í flokki ásamt Hjalta og öðrum skipuleggjendum göngunnar. Ljósmynd/ Druslugangan

Það fór vart framhjá neinum nettengdum íbúum landsins að hér varð feminísk bylting árið 2015. Byltingin stóð saman af ýmsum minni sigrum og hugarfarsbreytingum vegna þess rýmis sem konur tóku sér á samfélagsmiðlum til að ræða kynbundið ofbeldi, kynvæðingu kvenlíkamans og almennan réttindahalla. En hvað svo?

Það er einmitt það sem rætt var á málþingi á vegum kvenna í öllum stjórnmálaflokkum Alþingis á Hilton Reykjavík Nordica. Meðal frummælanda voru þau Hjalti Vigfússon og Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir sem eru meðlimir í skipulagshópi Druslugöngunnar.

„Druslugangan varð eiginlega samansafn af öllum þessum byltingum,“ segir Salvör í samtali við mbl.is. „Gangan var sú stærsta til þessa og það var greinilegt að fólk er sammála um að það þurfi að breyta samfélagsviðmiðum og kerfinu í kynferðisbrotamálum.“ 

Salvör segir að í síðustu göngu hafi hópurinn sem tók þátt í og studdi við gönguna ekki bara verið stærri heldur jafnframt fjölbreyttari en áður.

„Það er svolítið eins og viðhorf Druslugöngunnar og það sem hún berst fyrir hafi farið almennilega út í meginstrauminn árið 2015. Fólk virtist almennt vera „on board“ sem er frábært því það erum ekki við skipuleggjendurnir sem gerum Druslugönguna að því sem hún er heldur fólkið sem mætir. Allir virtust sammála um mikilvægi göngunnar.“

Úr Druslugöngunni 2015.
Úr Druslugöngunni 2015. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Skapa rými fyrir aðra hópa

Hvað fyrrnefnt „hvað svo“ varðar segir Salvör mikilvægt að halda byltingunni áfram og nýta hana í auknum mæli til að vekja máls á aðstæðum fjölbreyttari undirokaðra hópa.

„Byltingin má ekki bara vera fyrir ungar hvítar cis-konur, sumsé konur sem álíta sig í því kyni sem samfélagið úthlutar þeim, en það er hópur sem ég og stór hluti skipulagshópsins tilheyrir. Það er svo mikilvægt að við getum notað þennan stökkpall sem við höfum til að skapa rými fyrir aðra hópa til að tjá sig.“

Salvör nefnir að samfélagsmiðlabyltingar ársins hafi ekki náð til eldri þolenda, karla og kvenna, til jafns við þá sem yngri eru. Kynferðisofbeldi sé alls ekki nýtilkomið vandamál og tímabært sé að eldra fólki sé gefið rými til að tjá sig og það sama gildi um fólk með fatlanir, fólk af erlendum uppruna og ýmsa aðra minnihlutahópa.

„„Hvað svo“ snýst fyrir mér um að ná yfir þessa hópa og gefa þeim rödd. Við hinar erum búin að taka okkur ákveðið pláss í samfélaginu og þá er svo mikilvægt að lyfta þeim sem búa við minni forréttindi upp.“

Hún nefnir að árið hafi skilað vinnu að raunverulegum kerfisbreytingum og að María Rut Kristinsdóttir, talskona Druslugöngunnar, hafi verið ráðin til innanríkisráðuneytisins þar sem hún fer fyrir samstarfshópi um bætta verkferla í kynferðisbrotamálum. Hún segir alla geta komið að því að vinna gegn kynferðisofbeldi, t.a.m. megi nota Druslugönguna sem vettvang og tækifæri til að ræða við börn og unglinga um framkomu í kynlífi og mikilvægi þess að fá já.

„Byltingin er ekki búin,“ segir Salvör. „Það er enn mikill baráttuhugur í fólki og þessi bylting getur aðeins orðið stærri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert