„Góður vinur er betri en slæmur bróðir“

Amman Noufa al-Mohammad í faðmi fjölskyldunnar. Sonur hennar, Khattar al-Mohammad …
Amman Noufa al-Mohammad í faðmi fjölskyldunnar. Sonur hennar, Khattar al-Mohammad lengst til vinstri með yngsta barnið og eiginkonan Halima al-Hamo er við hlið hans. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Góður vinur er betri en slæmur bróðir," sagði Khattar al-Mohammad, einn sýrlensku flóttamannanna sem komu til Akureyrar í gærkvöldi, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins og mbl.is í dag og lýsti þannig ánægju sinni með að vera kominn til nýrra heimkynna, laus við „brjálæðinginn“ sem ræður för í gamla heimalandinu.

Formlega var tekið á móti hópnum í samsæti hjá Rauða krossinum síðdegis í dag. Sýrlendingarnir, hinir nýju Akureyringar, eru 23; fjórar fjölskyldur. Noufa al-Mohammad, móðir Khattars, er elst, 67 ára. Með henni í heimili eru sonurinn, eiginkona hans Halima al-Hamo og sex börn. Yngsta barnið er tveggja ára.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri bauð hópinn velkominn, sömuleiðis Sveinn Kristinsson, formaður Rauða kross Íslands, og Sigurður Ólafsson, formaður Eyjafjarðardeildar RKÍ.

Ei­rík­ur Björn Björg­vins­son, bæj­ar­stjóri á Ak­ur­eyri, ásamt mæðgin­unum Noufa al-Mohammad, …
Ei­rík­ur Björn Björg­vins­son, bæj­ar­stjóri á Ak­ur­eyri, ásamt mæðgin­unum Noufa al-Mohammad, sem er 67 ára, og syni hennar Khatt­ar al-Mohammad. Skapti Hallgrímsson

Var treg að fara til Íslands

Noufa al-Mohammad er frá Aleppo, borg sem mikið hefur verið í fréttum undanfarin misseri vegna stríðsins. Hún missti eiginmann sinn fyrir tveimur árum og ellefu börn þeirra eru nú tvístruð víða; sum enn í Sýrlandi, önnur í Þýskalandi og Tyrklandi, auk Íslands. Noufa var útivinnandi í þrjátíu ár. Starfaði í fataverksmiðju og hjónin unnu sem sagt bæði utan heimilis, til að fæða og klæða fjölskylduna. „Nú er hún sest í helgan stein,“ segir sonurinn Khattar og brosir til móður sinnar.

Síðustu ár hefur fjölskyldan verið í flóttamannabúðum í Líbanon og þau mæðginin segja það hafa verið mjög erfitt að mörgu leyti. „Mamma og pabbi voru gift í 47 ár. Hún hefur verið ekkja í tvö ár og var mjög treg að fara þegar okkur var sagt að Ísland væri áfangastaðurinn. Það er svo langt til allra hinna barnanna hennar að mamma óttaðist að hún gæti aldrei séð þau aftur. En það breyttist þegar okkur var tjáð að mögulegt væri að fara í stuttar heimsóknir til þeirra,“ sagði Khattar þegar hann túlkaði svar móður sinnar, eftir að spurt var hvernig henni hefði litist á nýja heimalandið.

Einn sonur Khattar al-Mohammad og Halima al-Hamo var örþreyttur á …
Einn sonur Khattar al-Mohammad og Halima al-Hamo var örþreyttur á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi. Skapti Hallgrímsson
Ungi pilturinn sem var örþreyttur á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi var …
Ungi pilturinn sem var örþreyttur á Akureyrarflugvelli í gærkvöldi var úthvíldur og eldhress síðdegis í dag. Skapti Hallgrímsson



Verðum vonandi hluti af þessari stórri fjölskyldu

Ekki fer á milli mála að Noufa al-Mohammad er fjarskalega þakklát. „Íslendingar hafa verið mjög góðir við okkur og vilja allt fyrir okkur gera. Ég ber mikla virðingu fyrir þeim og vona að við getum öll orðið hluti af þessari stóru, góðu fjölskyldu sem Íslendingar eru,“ segir gamla konan. „Ég er ótrúlega þakklát að ráðherrarnir skyldu taka á móti okkur á flugvellinum. Mér fannst það alveg ótrúlegt og ég er líka mjög þakklát forráðamönnum bæjarins hér að þeir skuli hafa komið og hitt okkur.“ Auk bæjarstjórans voru nokkrir bæjarfulltrúar viðstaddir móttökuathöfnina í dag.

Þeim finnst í kaldara lagi en Khattar segir að stundum snjói í Sýrlandi. „Stundum var snjór hjá okkur í einn dag yfir veturinn, kannski í tvo daga! En aldrei eins og hér,“ segir hann og bendir út um gluggann á húsnæði Rauða krossins við Viðjulund. Snjóruðningar blasa við, eftir að götur voru ruddar.

Og þau eru ánægð með aðstæður allar. „Íbúðin okkar er góð og þar er hugsað fyrir öllu, meira að segja því sem litla barnið þarf á að halda,“ sagði Khattar og Noufa bætti við: „Takk Íslendingar, takk Ísland. Frábær þjóð.“

Eitt yngsta barnið í hópi Sýrlendinganna í mótttökuathöfninni í dag.
Eitt yngsta barnið í hópi Sýrlendinganna í mótttökuathöfninni í dag. Skapti Hallgrímsson

Khattar starfaði sem enskukennari í Sýrlandi í tvo áratugi og síðan sem leiðsögumaður ferðamanna. Eftir að fjölskyldan flúði til Líbanon tókst honum ekki að finna launaða vinna og starfaði því sem sjálfboðaliði fyrir flóttamannasamtök þar í landi.

Hann segir ástandið hryllilegt í Aleppo eins og mjög víða annars staðar í Sýrlandi. „Búið er að flæma  marga úr landi en samt er enn verið að gera loftárásir á marga staði og fólk þannig hrakið áfram frá heimkynnum sínum. Það er verið að drepa fólk til einskis, segi ég, en tilgangurinn er aðeins einn: að halda brjálæðingnum Assad forseta við völd.“

Sýrland er mitt land - gleymi því aldrei

Khattar segir enn allt of snemmt að velta því fyrir sér hvort fjölskyldan geti einhvern tíma snúið heim. „Að vera góður þjóðfélagsþegn er að bera virðingu fyrir eigin þjóð og eigin landi. Ég ber virðingu fyrir þjóð minni og Sýrland er mitt land. Ég get aldrei gleymt því en ástandið þar er hörmulegt og ómögulegt að búa í landinu. Vonandi lagast ástandið og kannski getum við einhvern tíma farið til baka, hver veit. Fólkið hér er yndislegt og þetta er góður staður. Hér eru vinir okkar núna og við hugsum ekki lengra í bili. Góður vinur er betri en slæmur bróðir,“ sagði Khattar al-Mohammad.

Sveinn Kristinsson, formaður Rauða kross Íslands, Noufa al-Mohammad og Kristín …
Sveinn Kristinsson, formaður Rauða kross Íslands, Noufa al-Mohammad og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert