Vill rannsókn á sölunni á Borgun

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, rifjaði upp sölu Landsbankans á greiðslukortafyrirtækinu Borgun á Alþingi í dag í ljósi frétta af yfirtöku Visa International Service á Visa Europe en viðskiptin munu skila Borgun og Valitor milljörðum króna. Árni Páll sagði að kaupin á Borgun hljóti að teljast viðskipti aldarinnar í íslensku viðskiptalífi.

Fyrir vikið vaknaði sú spurning hvað réði verðmati Landsbankans á Borgun. Fara þyrfti fram alvöru rannsókn á málinu. Fjármálaeftirlitið yrði að láta málið til sín taka og eftir atvikum stjórnskipunar- og eftirlitnefnd Alþingis. Fá þyrfti allar upplýsingar upp á borðið. Þetta væri ekki síst mikilvægt í ljósi þess að til stæði að selja hlut ríkisins í Landsbankanum og að núverandi stjórnarflokkar ættu sér slæma sögu þegar kæmi að slíkum viðskiptum.

„Er ekki ástæða til þess að Alþingi láti þetta mál nú til sín taka af alvöru? Marki alvöru leikreglur að þessu leyti og krefji Landsbankann um reikningsskil þeirra fáránlegu ákvarðana sem teknar voru við sölu Borgunar úi leyni árið 2014.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert