Tveir þingmenn Samfylkingarinnar, þau Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, hafa lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu og um neytendalán þar sem gert er ráð fyrir því að verðtrygging slíkra lána verði bönnuð. Þá einkum þegar kemur að lánum til þess að kaupa húsnæði.
„Verðtryggð króna skapar ójafna stöðu í íslensku samfélagi: annars vegar almenningur og fyrirtæki á innlendum markaði sem taka lán í verðtryggðum krónum og hins vegar útflutningfyrirtæki sem hafa tekjur og lán í erlendum gjaldmiðlum. Vilji ríkisstjórnin halda í krónuna sem gjaldmiðil þá verður það ekki gert með því að halda jafnframt i verðtryggingu,“ segir í fréttatilkynningu frá þingmönnunum.
„Markmið þessa frumvarps er að leggja bann við verðtryggingu neytendalána, ekki síst lána til kaupa á húsnæði. Með neytendalánum er átt við lánasamninga sem lánveitandi gerir í atvinnuskyni við neytendur, sbr. lög um neytendalán, nr. 33/2013. Frumvarp þetta nær ekki til neytendalánasamninga sem þegar hafa verið gerðir og kunna að vera verðtryggðir. Um þá gilda lögin í þeirri mynd sem þau voru við undirritun samnings,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Bent er á að þegar verðtryggingunni hafi verið komið á árið 1979 hafi aðstæður á Íslandi verið allt aðrar en í dag. Þá hafi fjármálakerfið verið meira eða minna í eigi og undir stjórn ríkisins og vaxtaákvarðanir miðstýrðar. Afnám verðtryggingar þýddi ekki afturhvarf til þessa kerfis enda væru vaxtaákvarðanir með öðrum hætti nú. Vextir réðust á markaði og því hafi fjármálastofnanir meira svigrúm í dag til að bregðast við verðbólgu og mikilli spurn eftir lánsfé. Afán verðtryggingar gerði stýrivexti Seðlabankans að skilvirkara hagstjórnartæki og þýddi meira aðhald á efnahagsstjórn stjórnvalda.