Hæstiréttur hefur vísað frá kæru lögmanns í Aurum-holding-málinu sem vildi að ákvörðun dómstjóra um að taka Arngrím Ísberg héraðsdómara af málinu og setja héraðsdómarann Símon Sigvaldason í hans stað yrði dæmd ógild. Sagði Hæstiréttur að í kærunni hafi verið reynt að klæða ágreiningsefnið í annan búning sem átti sér enga stoð og málinu því vísað frá.
Að öllu óbreyttu mun Símon því áfram vera meðdómari í málinu, en miðað við fyrri yfirlýsingar annarra verjanda í málinu er líklegt að kærð verði sú ákvörðun að Símon hafi verið skipaður.
Í málinu eru ákærðir þeir Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, einn aðaleigandi bankans, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri. Þeim er gefið að sök umboðssvik eða hlutdeilt í umboðssvikum vegna sex milljarða króna lánveitingar Glitnis banka til félagsins FS38 í júlí 2008.
Í júní í fyrra, eftir aðalmeðferð sem teygðist yfir nokkra mánuði, voru ákærðu allir sýknaðir. Dómarinn Arngrímur skilaði þó séráliti þar sem hann vildi aðeins sýkna Bjarna, en sakfella Lárus, Magnús og Jón Ásgeir.
Mánuði síðar fór saksóknari fram á ómerkingu dómsins vegna ættartengsla sérfróðs meðdómara við Ólaf Ólafsson, sem hafði áður verið dæmdur af embætti sérstaks saksóknara. Féllst Hæstiréttur á það og þarf því að endurtaka málið í héraði.
Þar með var deilum um dómara þó ekki lokið, en saksóknari sagði Guðjón Marteinsson, dómsformann málsins, ekki vera óhlutdrægan í málinu. Var meðal annars vísað í viðtal við Guðjón eftir dóm Hæstaréttar og aðsenda grein í Fréttablaðið sem þó var aldrei birt. Að lokum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að Guðjóni bæri að víkja í málinu og var Barbara Björnsdóttir skipuð dómsformaður. Þá var Arngrímur Ísberg tekinn af málinu og Símon Sigvaldason settur í staðinn. Skipaði Barbara svo Hrefnu Sigríði Briem, forstöðumann grunnnáms HR í viðskiptafræði, sem sérfróðan meðdómara.
Barbara hafnaði fyrir níu dögum kröfu verjanda Bjarna um að Arngrímur kæmi aftur í dóminn og kærði verjandinn þá niðurstöðu til Hæstarétts. Verjandi Jóns Ásgeirs sagðist við sama tækifæri munu kæra setu Símonar ef Arngrímur yrði ekki tekinn inn aftur.
Í dómi Hæstaréttar í dag kemur fram að ekki standi ágreiningur um hæfi Símonar til að sitja í dómnum, heldur hvort dómstjóri hafi að lögum mátt taka ákvörðun um að úthluta málinu til annars dómara í hans stað. Segir Hæstiréttur að það efni geti ekki sætt kæru til réttarins samkvæmt neinni lagaheimild og „verður ekki fram hjá þeirri staðreynd komist með því að leitast við að klæða það ágreiningsefni í annan búning sem á sér enga stoð. Máli þessu verður því vísað frá Hæstarétti.
Þá hefur einnig verið deilt um sérfróðan meðdómara í málinu, en verjendur telja hana ekki hafa þá sérþekkingu sem þurfi í mál sem þetta. Dómari hafnaði því aftur á móti og taldi ekki þurfa að gera breytingar á skipun dómsins.