„Þetta mál er ekki mál sem Samfylkingin leggur fram eða stendur að, heldur tveir þingmenn í eigin nafni. Ég er ekki sammála því og styð það ekki og svo er um fleiri þingmenn Samfylkingarinnar,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í athugasemd við færslu á Facebook-síðu Jóns Steinssonar, dósents í hagfræði við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum.
Frétt mbl.is: Vilja afnema verðtrygginguna
Jón gagnrýndi þar frumvarp sem Helgi Hjörvar, þingfokksformaður Samfylkingarinnar, og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður flokksins og formaður velferðarnefndar Alþingis, hafa lagt fram um afnám verðtryggingarinnar. Jón segir í færslunni að með frumvarpinu væri Samfylkingin að sóa orku sinni í tóma vitleysu. Sjálfsagt væri að bjóða neytendum upp á óverðtryggð lán en að banna þeim að taka verðtryggð lán út í hött. Sagði hann Samfylkinguna vera í ruglinu með málið. Árni Páll segir að í Samfylkingunni sé skoðanamunur varðandi verðtrygginguna.
„Stefna Samfylkingarinnar er önnur, sem sagt að auka valfrelsi fólks, auka vægi óverðtryggðra lána sem valkosts og losna við verðtryggingu með upptöku alvöru gjaldgengs gjaldmiðils. Þú þarft því ekki að hafa áhyggjur af því að Samfylkingin sé í einhverju rugli í þessum málum.“