„Ég hef verið með þetta mál í einhverri mynd frá því sumarið 2013. Samfylkingin vill auðvitað afnema verðtrygginguna en hefur talið skynsamlegustu leiðina til þess að ganga í Evrópusambandið, náist hagstæðir samningar, og taka upp evru. Það var hins vegar ljóst í síðustu kosningum að það yrði ekki á næstunni og við ætluðum að vera áfram með íslenska krónu og ég tel ekki að það sé hægt að halda því áfram með verðtryggingu.“
Þetta segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is en hún er fyrsti flutningsmaður frumvarps til breytinga á lögum um vexti og verðtryggingu og um neytendalán þar sem gert er ráð fyrir því að verðtrygging slíkra lána verði bönnuð. Frumvarpið flytur hún með Helga Hjörvar, þingflokksformanni flokksins. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hefur lýst því yfir að málið sé ekki í nafni flokksins.
Sigríður bendir á að Framsóknarflokkurinn hafi lýst því yfir að afnema ætti verðtryggingu og því hafi hún gert ráð fyrir þingmáli frá framsóknarmönnum þess efnis. „Flokkurinn hefur hins vegar verið á flótta á undan málinu. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu um það í þinginu við forsætisráðherra í rúmt ár án þess að hann hafi orðið við því. Síðast hefur hann talað um þjóðaratkvæði um verðtrygginguna og með því afsala sér pólitískri ábyrgð á málinu.“
Frétt mbl.is: Styður ekki eigin þingmenn
Sigríður segir ljóst að Alþingi verði að fjalla um málið og taka það föstum tökum. „Þetta þingmál hefði verið lagt fram fyrr en það hafa verið mjög deildar meiningar um það í okkar röðum sem endurspeglar held ég bara almennt viðhorfin í samfélaginu. Það eru deildar meiningar. En eftir jólin varð niðurstaðan sú að okkur væri frjálst að flytja þetta þingmál. Ég held að það sé bara fagnaðarefni að við fáum alvöru umræðu um málið.“
Stefna Samfylkingarinnar er að sögn Árna Páls að fólk hafi val um að taka annað hvort verðtryggð lán eða óverðtryggð. Langtímastefnan sé þó að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Sigríður segir að fólk eigi að sjálfsögðu að hafa val. Hins vegar sé ljóst að þegar lánveitandinn geti losað sig við áhættuna af verðbólgu yfir á lántakann þá litist lánaframboðið af þeim raunveruleika. „Þannig að þetta er ekki raunverulegt val.“
Frétt mbl.is: Vilja afnema verðtrygginguna
Sigríður minnir á að allt aðrar aðstæður hafi verið fyrir hendi þegar verðtryggingunni hafi verið komið á árið 1979. Þá hafi ríkið stjórnað vaxtastigi í stað þess að það gerðist á markaði og mikill skortur hafi verið á fjármagni. Í dag væri nóg af fjármagni og sem fyrr væri þörf fyrir að ávaxta það fjármagn einhvers staðar.
„Þetta hefur verið þrætuefni í íslensku samfélagi áratugum saman og ég held að við ættum að horfast í augu við það. Og ég held líka að við í Samfylkingunni ættum líka að íhuga hvers vegna fólk yfirgaf okkur í síðustu kosningum. Hvort þetta sé ein af ástæðunum.“