Þorði ekki að leggja sig í 48 tíma

AFP

Íslendingur nokkur ráfaði í 48 klukkustundir um flugvöll í Peking og þorði ekki að halla sér af ótta við afskipti öryggisvarða eða lögreglu. Þetta kemur fram í samtali við Elizabeth Sy, aðalræðismann Íslands í Manila á Filippseyjum, í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Forsaga málsins er sú að maðurinn var á leið frá Íslandi á ráðstefnu í Manila. Hann þurfti að millilenda í Peking og þar sem innan við sex mánuðir voru eftir af gildistíma vegabréfsins hans neitaði Philippine Airlines að hleypa honum um borð í flug sitt til Manila.

Maðurinn sendi Sy strax tölvupóst en þar sem þetta var á sunnudegi og hún í helgarfríi í sumarbústað með stopulu netsambandi sá hún bréfið ekki fyrr en morguninn eftir.
Sy hringdi strax út um allar trissur til að freista þess að greiða götu mannsins sem átti að halda erindi á ráðstefnunni og tíminn var að verða naumur. „Á sama tíma var maðurinn orðinn mjög áhyggjufullur, þar sem hann ráfaði um flugvöllinn í Peking, enda var hann ekki með dvalarleyfi í Kína. Átti bara að millilenda þar,“ segir hún.

Ekki er hlaupið að því að fá tilskilin leyfi fyrir neyðarvegabréfi og það var ekki fyrr en á hádegi á þriðjudegi að Sy var komin með pappíra sem dugðu manninum til að komast um borð í vélina í Peking.

„Ég tók sjálf á móti manninum á flugvellinum í Manila og afhenti honum neyðarvegabréfið sem kom honum inn í landið. Áður en leiðir skildi greindi hann mér frá þessari hræðilegu lífsreynslu á flugvellinum í Peking. Þar sem hann hafði ekki áritun til Kína mátti hann, lögum samkvæmt, ekki vera þar lengur en sem nam millilendingunni. Fyrir vikið hafði honum varla komið dúr á auga, þessar 48 klukkustundir sem hann var á flugvellinum; þorði ekki að halla sér af ótta við afskipti lögreglunnar.“

Rétt fyrir brottför var hann svo tekinn í yfirheyrslu og spurður hvers vegna teygst hefði úr dvöl hans í Kína. Þá gat hann framvísað fjölda tölvupósta og smáskilaboða milli þeirra Sy sem skýrðu málið. Var það tekið gott og gilt og maðurinn komst á ráðstefnuna í Manila.

Nánar er rætt við Sy og þrjá aðra ræðismenn Íslands í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Elizabeth Sy, aðalræðismaður Íslands í Manila.
Elizabeth Sy, aðalræðismaður Íslands í Manila. mbl.is
mbl.is
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert