Rétt er að leiða hugann að því hvernig landslagið í uppbyggingarmálum borgarinnar er að breytast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Munu uppbyggingarverkefni sem hafa farið í gegnum löglega skipulagsferla nú standa og falla með skoðunum ráðamanna hverju sinni og hverju mega fjárfestar og uppbyggingaraðilar búast við á næstu árum? Að þessu spyr Guðmundur Kristján Jónsson, skipulagsfræðingur og framkvæmdastjóri Borgarbrags ehf. á vefsíðu sinni.
Hugleiðingar hans koma til vegna afskipa forsætisráðuneytisins af skipulagi á Hafnartorgi, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, hefur haft sterkar skoðanir á því hvernig haldið er á málinu og meðal annars var haft eftir honum á föstudaginn að í skoðun væri makaskipti á lóð Landstólpa við Hafnartorg og lóð ríkisins við Skúlagötu. Hafði Sigmundur áður sagt útlit bygginga við Hafnartorg vera „skipulagsslys.“
Guðmundur segir að skipulagið sem slíkt í kringum Hafnartorg sé í raun óumdeilt, en ekki verði hið sama sagt um útlit bygginganna sem þar eiga að rísa. Þegar upp komu hugmyndir á föstudaginn að ríkið myndi leigja stóran hluta af skrifstofuhúsnæði á staðnum og um leið koma að ákvörðun um hönnun húsanna sagði Guðmundur að rétt væri að íhuga hvers virði slíkur langtímaleigusamningur við ríkið á sjö þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði væri.
Þá væri einnig æskilegt að velta fyrir sér hvort einsleit starfsemi á vegum hins opinbera taki á leigu allt skrifstofurými Hafnartorgs. „Hvaða áhrif mun það hafa á annan rekstur á svæðinu, t.d. hvaða kaffihús og verslanir kjósa að hefja rekstur í slíku umhverfi og hvaða íbúar kjósa að búa á svæðinu?“ spyr Guðmundur.
Seinna kom upp að verið væri að skoða makaskipti á umræddri lóð. Eftir standa samt spurningar Guðmundar um hvaða arkitektar munu koma að endurhönnun húsanna og í gegnum hvaða ferli verða þeir ráðnir. Þá spyr hann hvort það sé raunhæfur tímarammi að vinna jafn umfangsmikla hönnunarvinnu og gert er ráð fyrir á aðeins þremur vikum, en það er frestur málsins. Þá telur Guðmundur rétt að fá svör við því hversu mikið slík hönnunarvinna muni kosta og hver greiði fyrir hana.