Rúmlega 40 þúsund manns hafa skráð sig í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem þess er krafist að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins í stað 8,7% eins og staðan er í dag. Söfnunin hófst á föstudaginn.
Yfirskrift undirskriftasöfnunarinnar er „Endurreisum heilbrigðiskerfið“ en á söfnunarsíðunni segir meðal annars: „Heilbrigðiskerfi er einn af hornsteinum nútímasamfélags og sýnir vilja þess til þess að hlúa að þeim sem eru sjúkir og meiddir. Gott heilbrigðiskerfi endurspeglar sjálfsagða samhygð en lélegt heilbrigðiskerfi óásættanlegan kulda gagnvart þeim sem eru hjálpar þurfi. Það er okkar mat að á síðasta aldarfjórðungi hafi stjórnvöld vannært íslenskt heilbrigðiskerfi, að því marki að það sé ekki lengur þess megnugt að sinna hlutverki sínu sem skyldi.“
Fréttir mbl.is:
Segir gagnrýni byggja á hvatvísi
Hugmyndir Kára kalla á skattahækkun
Reiknar með ásökunum um lýðskrumMyndskeið