„Þetta er í raun einfalt“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist vera sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það hafi stjórnvöld gert á undanförnum árum. Hann segir hins vegar vafasamt að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu.

Þetta skrifar forsætisráðherra á Facebook-síðu sína, en hann vísar til undirskriftarstöfnunar Kára Stefánssonar um endurreisn heilbrigðiskerfisins. Þar segir m.a., að það sé mat þeirra sem gerst þekki til að Íslendingar þurfi að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál.

Færsla Sigmundar er svohljóðandi:

„Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það þurfum við, og eigum, að gera áfram. 

Að mæla heilbrigðisþjónustu aðeins út frá ákveðnu hlutfalli af landsframleiðslu er hins vegar vafasöm leið. Landið sem er með hæst hlutfall landsframleiðslu til heilbrigðismála er Túvalú (18,5%) og í öðru sæti eru Bandaríkin (17,1%) [World Bank, 2013]. 14 lönd ná 11% þ.m.t. Síerra Leóne, Moldóva, Leshótó og Rúanda. Ekkert Norðurlandanna nær 11%. Noregur er 0,5% fyrir ofan Ísland. Fyrir neðan Ísland eru meðal annars ,,mesta velmegnuarland Evrópu", Lúxemborg, með 7,1%.

Þetta er í raun einfalt. Við þurfum að halda áfram að auka verðmætasköpun í landinu og setja meira í heilbrigðismál og almannatryggingar. Þannig þurfum við að forgangsraða hvort sem hlutfall af VLF verður hærra eða lægra en í Síerra Leóne.“

 

Ég er sammála þeim sem telja mikilvægt að auka framlög til heilbrigðismála. Það höfum við gert á undanförnum árum og það...

Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on 25. janúar 2016

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert