Fjárkúgunin enn til meðferðar

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Þórður

Fjárkúgunarmálið er enn til meðferðar hjá embætti héraðssaksóknara en málið, sem snýst um fjárkúgunarbréf sem sent var Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra og eiginkonu hans, er eitt þeirra mála sem embættið fékk í sínar hendur um áramótin þegar það tók til starfa.

Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is, en embættið mun taka ákvörðun um það hvort ákært verði vegna málsins. Málið var í rannsókn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í rúma fimm mánuði og var að rannsókn lokinni sent til ríkissaksóknara 9. nóvember. Þar var málið til meðferðar til áramóta eða þar til það var sent til héraðssaksóknara sem hefur síðan haft það til meðferðar.

Systurnar Hlín Einarsdóttir og Malín Brand voru handteknar í lok maí á síðasta ári grunaðar um að hafa sent bréf í pósti til forsætisráðherra og krafist þess að hann greiddi þeim tiltekna fjárhæð. Fjármunina átti að skilja eftir á ákveðnum stað sunnan Vallahverfisins í Hafnarfirði. Þar handtók lögregla konurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert