„Sá hagvöxtur sem hefur fylgt aukinni framleiðslu í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur annars vegar farið í almennar kjarabætur með hækkun launa og lækkunar skulda landsmanna og hins vegar í heilbrigðiskerfið. Forgangsröðun núverandi stjórnarmeirihluta ætti því að vera Kára ljós sem og fylgjendum hans. Forgangsröðun fyrri ríkisstjórnar var önnur eins og menn væntanlega muna.“
Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag í tilefni af undirskriftastöfnunar Kára Stefánssonar þar sem þess er krafist að sem nemi 11% af landsframleiðslu verði varið í heilbrigðiskerfið í stað 8,7% sem yfir 40 þúsund manns hafa tekið þátt í. Brynjar segist hafa búist við betri þátttöku. Kári hefði vafalaust náð svipuðum árangri með því að krefjast þess að auknu hlutfalli af landaframleiðslu yrði varið í menntakerfið, til elli- og lífeyrisþega, til lögreglunnar og dómsmála, í samgöngur, fæðingarorlof, málefni barna og til menningar og lista. Megnið af útgjöldum ríkisins fari til þessara málaflokka.
Frétt mbl.is: 40 þúsund skrifa undir hjá Kára
„Má því ætla að krafa Kára um 50 milljarða aukningu í heilbrigðismálin á hverju ári yrði fyrst og fremst á kostnað framangreindra málaflokka. Hins vegar er ljóst vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar að ekki verður hjá því komist að auka fé til heilbrigðismála í nánustu framtíð. Svo að það verði ekki um of á kostnað annarra mikilvægra málaflokka, sem snerta innviði í okkar örsmáa samfélagi, er mikilvægt að auka landsframleiðsluna. Mestir möguleikar okkar í þeim efnum felast í orkusölu hvort sem okkur líkar betur eða verr,“ segir Brynjar og bætir við:
„Sumir hafa haldið því fram að til að ná í þessa árlegu 50 miljarða í heilbrigðiskerfið þurfi hvorki að auka landsframleiðsluna né draga úr útgjöldum til annarra mikilvægra málaflokka. Ríkið þurfi bara að ná til sín stærri hluta landsframleiðslunnar með hækkun skatta á atvinnulífið og auðlegðarskatt á þá sem eiga meira en 75 milljónir í hreinni eign. Öllum má vera ljóst í ljósi sögunnar að slíkt myndi hvorki auka landsframleiðslu né tekjur ríkisins til lengri tíma litið, heldur þvert á móti.“