47 þúsund undirskriftir

Rúmlega 47 þúsund manns hafa skráð sig í undirskriftasöfnun Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, þar sem þess er krafist að sem nemi 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðiskerfisins. Söfnunin hófst á föstudaginn.

Íslendingar eyða því sem nemur 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og er það langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða. Þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar um aldarfjórðungsskeið hafa ekki haft að því frumkvæði að fjármagna heilbrigðiskerfið eins og skyldi, ætlum við undirrituð að taka frumkvæðið með eftirfarandi kröfu,“ segir meðal annars á söfnunarsíðunni.

Miklar umræður hafa átt sér stað undanfarna daga um undirskriftasöfnunina sem fer fram undir yfirskriftinni „Endurreisum heilbrigðiskerfið“. Deilt hefur verið meðal annars um það hvort þær tölur sem lagðar hafa verið til grundvallar undirskriftasöfnuninni séu réttar. Einnig hefur verið kallað eftir því að upplýst verði hvað eigi að skera niður á móti auknum framlögum til heilbrigðiskerfisins. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði á Alþingi í gær að endurreisn heilbrigðiskerfisins væri þegar hafin og til að mynda hefðu framlög til þess verið aukin um 10% á milli áranna 2015-2016 samkvæmt fjárlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert