Dómarar ósáttir með saksóknara

Björn Þorvaldsson, saksóknari í Chesterfield-málinu.
Björn Þorvaldsson, saksóknari í Chesterfield-málinu.

Í nýbirtum dómi í Chesterfield-málinu er saksóknari gagnrýndur fyrir að hafa látið mikinn fjölda óþarfra gagna fylgja með skjölum málsins, en þau voru samtals rúmlega 6.000 blaðsíður. Kemur fram í dómnum að ákæruvaldið hafi aðeins notað hluta þessara gagna til að byggja málatilbúnað sinn á. Slíkt er andstætt lögum um meðferð sakamála samkvæmt dómnum.

Gífurlegt gagnamagn hefur fylgt hrunmálunum svokölluðu hingað til. Meðal annars voru á tíunda þúsund blaðsíður í gögnum málsins í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings. Hafa verjendur í málunum oft bent á að þeim og dómstólum sé drekkt í pappírsflóði sem ógerningur er að fara yfir. Í þetta skipti virðist dómurinn taka undir með verjendum og gagnrýnir harðlega þetta vinnulag saksóknara.

Í dómnum sem féll í dag segir að það sé andstætt 134. grein laga um meðferð sakamála að leggja fram margvísleg óþörf skjöl með ákærunni, „sem þá hlaut að mega sjá fyrir að ekki yrðu prófuð eða færð fram við málsmeðferðina,“ eins og komist er að orði í dómnum.

134. greinin hljóðar svo:

Aðilar leggja fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði tillit til við úrlausn máls.
-Ákærandi leggur fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og sönnunargildi hafa að hans mati, þar á meðal þau sem hafa að geyma framburð ákærða og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu. Þó er einungis heimilt að leggja fram skýrslur sem vitni hafa gefið hjá lögreglu eða eftir atvikum öðrum stjórnvöldum ef ætlunin er að leiða þau fyrir dóm eða ekki er kostur á að fá þau fyrir dóm til að gefa skýrslu. Ef ástæða er til skal ákærandi enn fremur leggja fram lista með nöfnum þeirra sem hafa gefið skýrslu hjá lögreglu eða öðrum stjórnvöldum.

Í dómnum er fleira talið til sem þykir gagnrýnivert við framsetningu saksóknara. Þannig segir t.d. að „ítrekuðum tilmælum dómsins til ákæruvaldsins fyrir aðalmeðferð í málinu um að útbúið yrði hefti eða „ágrip“ með afriti af þeim skjölum sem færð yrðu fram í málinu var synjað.  Loks er þess að geta að skjalaröðin í málinu virðist að nokkru leyti vera handahófskennd.  Hafa þessir saksóknarhættir valdið óþarfri fyrirhöfn í meðferð málsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert