Niðurstaða dómsins skýr

Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum.
Hörður Felix og Hreiðar Már í réttarsalnum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Niðurstaða dómsins er skýr og fullyrðingar um að lánað hafi verið til viðskiptanna sem ákært er fyrir án þess að tryggingar væru til staðar eru rangar,“ Þetta segir Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrum forstjóra Kaupþings, í samtali við mbl.is. Fyrr í dag var Hreiðar ásamt tveimur fyrrum stjórnendum hjá Kaupþingi sýknaður í héraðsdómi í svokölluðu Chesterfield-máli.

Þá segir Hörður að lögmenn verjenda í svokölluðum hrunmálum hafi í fyrsta skiptið fengið raunverulegan aðgang að gögnum þegar opnaður var lítill gluggi og það hafði afdrifaríkar afleiðingar fyrir  niðurstöðu dómsins.

Í samræmi við væntingar

„Fyrstu viðbrögðin eru að niðurstaðan í samræmi við væntingar og það sem ég hef frá upphafi talið rétt,“ segir Hörður. Hann segir að í gegnum alla málsmeðferðina hafi ákæruvaldið haldið því fram að lánveitingarnar hafi verið án trygginga. „Þetta er ítarlega rakið í dómnum. Niðurstaðan að forsenda ákæruvaldsins er bara röng,“ segir hann. Þetta segir hann vega þungt í dómnum og að gagnrýnt sé að rannsakendur hafi ekkert vikið að þessu á rannsóknarstigi.

Engin gögn um fyrirskipanir Hreiðars

Hörður segir einnig hvað dómurinn segi um aðkomu Halldórs Bjarkars Lúðvíkssonar, fyrrum lánastjóra hjá bankanum og lykilsvitni í málinu. Segir Hörður dóminn komast að því að engin skrifleg fyrirmæli hafi komið frá Hreiðari Má þar sem hann hafi skipað fyrir um að veita lánin án trygginga eins og hann er ásakaður fyrir.

Þá segir Hörður að áhugavert sé að sjá hvernig farið sé yfir vitnisburð Halldórs sem þyki óstöðugur, en hann breytti framburði sínum við rannsókn málsins milli áranna 2010 og 2012. Segir Hörður að það sé stór þáttur í niðurstöðu dómsins að það sé ósannað, sem haldið er fram í ákæru, að Hreiðar Már hafi gefið fyrirmæli um að reglum yrði ekki fylgt. Miðað við upplýsingar um að sími Halldórs hafi verið tekinn upp og ummæli hans um að þeir Hreiðar hafi verið í stanslausum samskiptum hefði væntanlega átt að vera auðvelt að sýna fram á að fyrirmæli kæmu frá Hreiðari, en engin slík gögn hafi verið lögð fram í málinu.

Betra að fá efnislega niðurstöðu

Kristín Edwald, lögmaður Magnúsar Guðmundssonar sem einnig er ákærður í málinu, segir niðurstöðuna ekki koma á óvart. „Fagna því að það sé komin niðurstaða,“ segir hún og bætir við að niðurstaðan sé í samræmi við það sem lagt var upp með.

Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar Einarssonar, fyrrum stjórnarformanns Kaupþings, segist telja niðurstöðuna í samræmi við efni málsins. „Þetta kemur ekki á óvart,“ segir Gestur og bætir við að betra sé að fá efnislega niðurstöðu í málið heldur en formlega og vísar þar til þess að þremenningarnir voru allir sýknaðir en málinu ekki vísað frá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert