Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg voru allir sýknaðir í héraðsdómi Reykjavíkur í Chesterfield málinu svokallaða í morgun.
Þrímenningarnir voru ákærðir fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Sérstakur saksóknari telur að féð sé allt tapað Kaupþingi.
Saksóknari í málinu hafði farið fram á að Hreiðari og Magnúsi yrði gerður refsiauki, en dómar yfir þeim hafa þegar fyllt refsiramma fyrir auðgunarbrot sem er 6 ár. Vildi saksóknari að horft yrði til 9 ára fyrir þá, samanber 72. greinar almennra hegningarlaga um aukna refsingu. Sigurður hafði hins vegar fengið fimm ára dóm og sagði saksóknari að horfa ætti til þess að fullnýta almennan refsiramma.
Þá var ríkissjóður málskostnaður þremenninganna dæmdur á ríkissjóð, en málsvarnarlaun verjanda Hreiðars Más voru 14,8 milljónir, verjanda Sigurðar um 9,5 milljónir og Magnúsar um 8,8 milljónir. Samtals rúmlega 33 milljónir.
Chesterfield-málið er það síðasta sem er í gangi gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings, en áður hefur verið dæmt í Al-thani málinu á báðum dómstigum. Þá er beðið að Hæstiréttur taki fyrir markaðsmisnotkunarmál Kaupþings og Marple-málið svokallaða.