Atli Freyr Fjölnisson, sem ákærður er í tengslum við stórfelldan innflutning fíkniefna hingað til lands í apríl á síðasta ári samhliða hollensku móðurinni Mirjam Foekje van Twujver, var aðeins hermaður í fremstu víglínu sem var fórnað í málinu af höfuðpaurum þess. Þetta sagði verjandi hans við málflutning fyrir Hæstarétti í dag, en hann fór meðal annars yfir tálbeituaðgerð og rannsókn lögreglunnar sem sýndi fram á að Atli væri lægstur í valdapíramídanum í tengslum við innflutninginn.
Atli var fenginn til að sækja töskur á Hótel Frón þar sem Mirjam dvaldi. Í dómi héraðsdóms kom fram að hann hefði verið fenginn til þess af óþekktum mönnum sem kæmu væntanlega að skipulagningu innflutningsins.
Verjandinn fór yfir aðkomu hans að málinu og þá vitneskju sem hann hafði. benti hann á að hlutverk Atla hafi ekki kallað á neina þekkingu heldur hafi hann bara verið að sendast og sjálfur talið að hann væri að sækja mun minna magn af sterum, en hann sagði það strax við fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu.
„Atli var viljalaust verkfæri,“ sagði verjandi hans og bætti við ástæða þess að hann hafi verið fenginn í verkefnið væri til að verja höfuðpaurana fyrir að lenda í höndum lögreglunnar. Sagði hann þá fá til liðs við sig ungan mann sem eigi í erfiðleikum og hafi glímt við geðsjúkdóma og hafi verið í neyslu. „Hann átti einmitt að slíta tengsl milli burðardýra og skipuleggjenda,“ sagði verjandinn, „hermaður í fremstu víglínu sem var fórnað.“
Sagði hann hlutverk Atla eins einfalt og hægt væri að hugsa sér, en að því fylgdi mikil áhætta og væri vel launuð. Dró hann ekki úr því að Atli hafi vitað að hann væri að sækja ólögleg efni, en að bæði magn og um hvaða efni væri að ræða hefði verið hulið honum.
Hafði Atla verið lofað allt að 400-500 þúsund krónum í heild fyrir að sækja efnin og sagði verjandinn að með þessu hefðu skipuleggjendurnir verið að nýta sér neyð hans. Benti hann til þess að á sakarvottorði Atla væru aðeins minniháttar fíkniefnabrot og ölvunarakstur og því ljóst að hann væri enginn glæpamaður, heldur ungur maður í vanda sem þyrfti markvissa hjálp.
Vitnaði verjandinn í nokkur fyrri mál og sagði að út frá t.d. Papeyjarmálinu væri hæst hægt að dæma Atla til 3,5 ára fangelsis, en hann hafði fengið 5 ár í héraðsdómi. Þá benti hann einnig til Pólstjörnumálsins þar sem hlutverk eins einstaklings hefði verið að sækja efnin í skútuna sem var siglt hingað og fara með þau í sumarhús á Suðurlandi. Hann hafi fengið eins árs skilorðsbundið fangelsi. Tók verjandinn reyndar fram að sá dómur hafi verið mögulega of vægur, en að 5 ára fangelsi yfir Atla væri langt frá því að teljast eðlilegur í ljósi fyrri fordæma.
Verjandinn nefndi einnig að rök ákæruvaldsins sem styddust m.a. við framburð sérsveitarmanns sem handtók Atla í aðgerðinni við Hótel Frón, væru misvísandi. Þannig hafi sérsveitarmaðurinn verið spurður um það fyrir dómi hvort Atli hafi verið lyfjaður eða undir áhrifum fíkniefna þegar hann var handtekinn. Lögreglumaðurinn svaraði: „Ég tók nú ekki eftir því.“ Sagði verjandinn að þetta ætti að túlka þannig að hann hafi ekki vitað það, ólíkt þeim skilningi sem saksóknari og héraðsdómari lögðu í framburðinn.