Götuverðmætið á annan milljarð

Efn­in sem gerð voru upp­tæk voru 10 kíló af MDMA …
Efn­in sem gerð voru upp­tæk voru 10 kíló af MDMA sem hægt er að nota í um 85 þúsund e-töfl­ur, 200 grömm af kókaíni og 9 kíló af am­feta­míni. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Götuverðmæti fíkniefnanna sem hollenska móðirin Mirjam Foekje van Twujver flutti til landsins er vel á annan milljarð krónur. Þetta kom fram í máli saksóknara við málflutning fyrir Hæstarétti í dag. Hafði dómari beðið saksóknara um að upplýsa um söluverðmæti efnanna sem rætt er um, en saksóknari hafði þær ekki á tæru.

Þegar kom að athugasemdum eftir venjulegan málflutning sagði saksóknari að hún hefði upplýsingar um viðmið lögreglunnar í fíkniefnamálum. Þar væri horft til þess að söluverðmæti amfetamíns væri 10 þúsund krónur á grammið, kókaín færi á 20 þúsund krónur grammið og hver e-tafla væri metin á 15 þúsund krónur.

Efnin sem gerð voru upptæk voru 10 kíló af MDMA sem hægt er að nota í um 85 þúsund e-töflur, 200 grömm af kókaíni og 9 kíló af amfetamíni. Var það sérstaklega tekið fram að amfetamínið væri mjög hreint, eða með um 69-70% hreinleika. Þá væri kókaínið með 64% styrkleika.

Sagði saksóknari að ef stuðst væri við viðmiðunarverð lögreglunnar væri götuvirði kókaínsins allt að 5 milljónir, amfetamínið 90 milljónir og e-töflurnar 1,275 milljarðar. Samanlagt tæplega 1,4 milljarðar.

Dómari spurði þá saksóknara hvort ekki væri rétt að eftir þurrkun og meðhöndlun, eins og greint væri frá í gögnum málsins, gæti sölumagn amfetamínsins verið um 42 kíló? Játaði saksóknari því og bætti þá dómari við að ef 42 kíló væru 42.000 grömm og hvert gramm væri á 10.000 krónur, þá væri verðmæti þess talsvert meira en 90 milljónir. Með slíkum útreikningum fæst að götuvirði þess er um 420 milljónir og því samanlagt verðmæti allra efnanna úti á götu um 1,7 milljarður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert