Íslendingur fær ekki að gleymast hjá Google

Íslendingurinn fær ekki að gleymast hjá Google.
Íslendingurinn fær ekki að gleymast hjá Google. AFP

Íslenskur einstaklingur sem hafði fengið skilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir fjármunabrot í starfi fær ekki að fjarlægja niðurstöður leitarvélarinnar Google sem vísa í fréttir um umrætt brot. Þetta kemur fram í úrskurði Persónuverndar, en maðurinn kvartaði yfir því að Google hafi neitað að fjarlægja niðurstöðurnar úr leitarvél sinni.

Skoðaði Persónuvernd málið meðal annars út frá tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu á móti réttinum til friðhelgis einkalífs í sömu sáttmálum.

Tekið er fram að Persónuvernd hafi ekki talið sig bæra til að taka ákvörðun um hvort tjáning hafi falið í sér misnotkun á réttinum til tjáningarfrelsis heldur heyri slíkt undir dómstóla. Hér reyni hins vegar ekki á hvort um hafi verið að ræða slíka tjáningu heldur hvort fréttaumfjöllun megi vera aðgengileg í niðurstöðu leitar á vefleitarvél. Telji Persónuvernd, í ljósi atvika í málinu og með hliðsjón af stjórnarskránni og mannréttindasáttmálanum, ekki hafa komið fram að samkvæmt lögum nr. 77/2000 hafi verið óheimilt að veita slíkt aðgengi að umræddri niðurstöðu leitar,“ segir í tilkynningu Persónuverndar.

Með vísan í ofangreint segir í úrskurðarorðinu að Google sé heimilt að veita aðgengi um vefleitarvél sína að niðurstöðu leitar um fjölmiðlaumfjöllun um umræddan dóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert