Krefur Landsbankann svara

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Bankasýsla ríkisins sendi bréf til Landsbankans í gær þar sem farið er fram á upplýsingar um það með hvaða hætti hafi verið staðið að sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum í eigu bankans aftur til ársins 2009. Þetta kom fram á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun þar sem fulltrúar Bankasýslunnar sátu fyrir svörum.

Fram kom í máli Lárusar Blöndal, stjórnarformanns Bankasýslunnar, að Landsbankinn hefði frest til 12. febrúar til þess að svara bréfinu en þar væri fyrst og fremst farið fram á upplýsingar um það með hvaða hætti hefði verið staðið að sölu á hlut bankans í kortafyrirtækinu Borgun sem og um önnur sambærileg mál. Þar á meðal hvaða mat Landsbankinn hefði lagt til grundvallar sölunni.

Hægt að skipta bankaráðsmönnum út

Tekið hefði verið fram í bréfinu að ef ekki yrði orðið við því að veita þessar upplýsingar væri Bankasýslan reiðubúin að beita ákvæðum í hlutafélagalögum til þes að knýja á um að þær yrðu veittar. Landsbankinn hafi hins vegar tekið vel í að afla umræddra upplýsinga. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, lagði áherslu á að engin ásökun fælist í bréfinu til Landsbankans.

Spurðir um hina bankana, Arion banka og Íslandsbanka, sögðu fulltrúar Bankasýslunnar að stofnunin væri ekki í sömu stöðu gagnvart hinum bönkunum og Landsbankanum vegna minni eignarhluta. Óvíst væri hvort eins vel yrði tekið í slíkt erindi þar á bæ. Það mætti hins vegar láta á það reyna að óska eftir sambærilegum upplýsingum þaðan.

Bjarkey Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, gerði athugasemd við það að verið væri að bregðast við eftir á eins og í fleiri málum. Betra væri ef hægt væri að fyrirbyggja að svona mál kæmu upp. Fram kom hins vegar í máli þeirra Lárusar og Jóns Gunnars að Bankasýslan gæti í raun aðeins brugðist við eftir á. Stofnunin væri í raun ekki í annarri stöðu en hver annar hluthafi. Þannig þyrfti til að mynda ekki samþykki hennar fyrir sölu á einstökum eignum Landsbankans.

Beri að framfylgja eigendastefnunni

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist þeirrar skoðunar að bankaráðsmenn ættu að framfylgja eigendastefnu bankans og ef þeir ekki gætu það eða vildu ættu að skipta þeim út. Fulltrúar bankasýslunnar lögðu áherslu á að eina tækið sem þeir hefðu til þess að hafa áhrif væri að skipta út bankaráðsmönnum ef ástæða þætti til þess. Rætt var um hvort nauðsynlegt væri að endurskoða eigendastefnuna og sögðu fulltrúarnir að stefnan, sem væri frá 2009, væri að ýmsu leyti barn síns tíma.

Þau ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í vikunni að salan á Borgun væri algjört klúður barst í tal og sagði Lárus að Bankasýslan væri að afla upplýsinga frá Landsbankanum til þess að geta lagt mat á það hvort um klúður hafi verið að ræða og þá hver eða hverjir bæru ábyrgð á því. Spurður hvernig hægt yrði að bergðast við því af hálfu Bankasýslunnar ef sú yrði niðurstaðan sagði Lárus að hægt væri að skipta út bankaráðsmönnum.

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar.
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert