Tveir af þremur mönnum sem stóðu að ráni í Gullsmiðjunni í Hafnarfirði í október neituð sök þegar mál gegn þeim var þingfest í dag. Einn þeirra hótaði starfsmanni með öxi en sami maður er jafnframt ákærður fyrir að hafa skotið á lögreglumenn úr loftbyssu þegar þeir reyndu að handtaka hann.
Ránið frömdu mennirnir 22. október í fyrra. Tveir þeirra fóru inn í verslunina vopnaðir öxi og neyðarhamri og með andlitin hulin lambúshettum. Andvirði þýfisins nam tæpum tveimur milljónum króna. Þriðji maðurinn hjálpaði tvímenningunum að komast undan og greiddi fyrir þýfið með reiðufé og fíkniefnum.
Sami maður og ógnaði starfsmanni verslunarinnar með öxi er einnig ákærður fyrir tilraun til sérstaklega hættulegrar líkamsárásar, brot gegn valdstjórninni, lögreglulagabrot, vopnalagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni þegar hann lagði á flótta undan lögreglumönnum sem ætluðu að hafa afskipti af honum í Keflavík að kvöld dagsins sem ránið var framið.
Á flóttanum skaut ræninginn, sem er á þrítugsaldri, þremur skotum að lögreglumönnunum úr loftskammbyssu. Þá skaut hann nokkrum skotum úr byssunni upp í loftið. Þegar lögreglumönnum tókst loks að hafa hendur í hári hans fannst nokkuð magn af amfetamíni á honum.
Hann er ennfremur ákærður fyrir að hafa brotist inn í sömu verslun tæpum mánuði fyrir ránið og stolið skartgripum að verðmæti 1,1 milljónar króna ásamt öðrum manni. Við þingfestinguna í morgun neitaði hann sök í öllum ákæruliðunum.
Maðurinn sem keypti þýfið úr ráninu er einnig ákærður fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot. Lásbogi fannst við leit lögreglu á heimili hans auk amfetamíns og maríjúana. Hann neitar aðild að ráninu en játaði að hafa átt fíkniefnin.
Þriðji maðurinn, annar þeirra sem rændi verslunina, mætti ekki við þingfestinguna vegna veikinda. Önnur fyrirtaka verður í málinu á næstunni þar sem hann mun taka afstöðu til sakarefnanna.