Telur söfnunina hafa náð hámarki

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

Stefán Pálsson sagnfræðingur telur að undirskrift Kára Stefánssonar, Endurreisn heilbrigðiskerfisins, hafi náð ákveðnu hámarki og nú muni hægja verulega á fjölgun undirskrifta.

Hann telur að nokkur þúsund undirskriftir gætu borist áður en söfnuninni lýkur en telur þó ólíklegt að met samtakanna Hjartans í Vatnsmýrinni verði slegið að þessu sinni. Árið 2013 skrifuðu rúmlega 69 þúsund manns undir lista þess efnis að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni yrði áfram á sama staða.

Söfnun Kára fór hratt af stað og söfnuðust rúmlega 50 þúsund undirskriftir á fimm dögum, eða frá 22. – 26. janúar. Níu daga tók að safna jafnmörgum undirskriftum vegna flugvallarins, eða dagana 16. ágúst – 24. ágúst 2013.

Þau sem skrifað hafa undir söfnun Kára krefjast þess að Alþingi verji árlega 11% af vergri landsframleiðslu til rekstrar heilbrigðiskerfisins, líkt og sjá má á þessari síðu

Stefán Pálsson sagnfræðingur.
Stefán Pálsson sagnfræðingur. Árni Sæberg

Einfalt að safna undirskriftum í dag

Stefán segir að þegar litið sé til undirskriftasafnanna sé sögulegur samanburður erfiður. Tæknin hefur gefið söfnunum byr undir báða vængi og einfaldað þær verulega. Áður hafi menn staðið fyrir utan verslanir ÁTVR á föstudögum með blöð í annarri og penna í hinni og marga sjálfboðaliða hafi þurft til að safna sem flestum undirskriftum.

Í dag sé ferlið mun einfaldara og á vefsíðu stjórnarráðsins megi til að mynda finna form sem leiðir þann sem vill hefja söfnun í gegnum ferlið. Þá er hægt að nota erlendar síður til að safna undirskriftum með einföldum hætti.

„Það þýðir að við sjáum stundum frekar hroðvirknislega unnar safnanir. Það þarf ekki annað en að það sé dramatísk frétt í fréttatímanum og þá eru tveir eða þrír stokknir af stað um kvöldið með frekar vanhugsaðar kröfugerðir og stafsetningarvillur í öðru hverju orði,“ segir Stefán.

Stefán segir að undirskriftasafnanir líkt og söfnun Kára fari oft af stað með miklum hraða en síðan dragi einnig hratt úr. „Mín tilfinning er sú að þessi tími sé alltaf að styttast. Maður er dálítið kominn með það á tilfinninguna að allar almennilega skipulagðar undirskriftasafnanir, nánast óháð málstað og sérstaklega ef þær eru á móti sitjandi stjórnvöldum, nái mjög hratt upp í 20 þúsund og svo fer þetta að vera erfiðara,“ segir Stefán einnig.

Söfnunin hefur vakið töluverða athygli og hafa nokkrir stjórnmálamenn tjáð sig töluvert um málefnið. Þá hefur Kári styrkt söfnunina með blaðaauglýsingum. Stefán segist reikna með að aftur gæti færst kraftur í undirskriftasöfnunina þegar upplýsingar berist um að henni fari að ljúka.

Stefán segir að undirskriftasafnanir líkt og söfnun Kára fari oft …
Stefán segir að undirskriftasafnanir líkt og söfnun Kára fari oft af stað með miklum hraða en síðan dragi einnig hratt úr. Morgunblaðið/Eggert

Þó að það muni „shitloads“ af peningum

Stærðfræðing­ur­inn og sam­fé­lagsrýn­ir­inn Pawel Bartoszek sagði í pistli sínum að töl­urn­ar sem Kári Stef­áns­son noti í und­ir­skrifta­söfn­un sinni til end­ur­reisn­ar heil­brigðis­kerf­is­ins séu ekki rétt­ar. Sagði hann tilfinningu sína vera að flest­ir sem hafi skrifað und­ir telji að þegar Kári tal­i um Alþingi sé hann að meina op­in­ber út­gjöld til heil­brigðismála.

Á síðu söfnunarinnar segir: „Íslendingar eyða því sem nemur 8.7% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál og er það langt undir meðaltali á Norðurlöndum. Það er mat þeirra sem gerst þekkja til að við þurfum að eyða allt að 11% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál vegna þess að við erum fá og dreifð sem gerir þjónustuna dýrari en meðal stærri og þéttbýlli þjóða.“

Frétt mbl.is: Pawel segir tölur Kára ekki réttar

Sagði Pawel að raun­in sé sú að um er að ræða heild­ar­út­gjöld til heil­brigðismála. Mis­mun­andi töl­ur séu að baki þess­um tveim­ur flokk­um, skrifaði Pawel og bæt­ti við að ef Ísland vill eyða jafn­miklu og Skandi­nav­ía til heil­brigðismála þarf að fara úr 8,8% af vergri land­fram­leiðslu í 10% en ekki 11% eins og Kári hef­ur haldið fram

„Menn voru eitthvað að þrefa um þetta á Facebook þar sem var verið að vísa í þessa útreikninga hjá Pawel sem eru strangt til tekið alveg réttir. En þeir byggðust í rauninni á þeim misskilningi að auðvitað hefði verið heiðarlegra ef að Kári hefði orðað spurninguna, ég vil að heilbrigðiskerfið verði stóreflt þó að það muni kosta „shitloads“ af peningum. Það hefði verið hressilega hreinskilinn texti en boðskapurinn er nokkuð augljóslega sá,“ segir Stefán, aðspurður um hvaða skilning hann telji að fólk sem skrifað hefur undir leggi í kröfu Kára.

„Þessi gagnrýni, að leggjast í þessa talnaleikfimi, mér finnst hún ekkert voðalega veigamikil. Það er löng hefð fyrir því að vísa til viðmiðunarlanda almennt, segja að menn vilji að við eigum að eyða jafn miklu í þróunaraðstoð eða mennta og nágrannalöndin. Það er alvanalegt í stjórnmálaumræðu,“ segir Stefán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert