„Kæri Sigmundur, þú ert forsætisráðherra og heilbrigðiskerfi landsins er í rusli. Þú berð svo sannarlega ekki ábyrgð á öllu ruslinu en þú berð ábyrgð á því hvernig við bregðumst við því núna.“ Svona hefst stuttur pistill sem Kári Stefánsson birtir á Facebook-síðu sinni og beinir til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.
„Til þess að geta brugðist við því á myndarlegan hátt þarftu stuðning fólksins í landinu vegna þess að það sem er látið í heilbrigðiskerfið verður ekki notað annars staðar. Þess vegna hljóta það að teljast mistök af þinni hálfu að taka ekki undirskriftarsöfnuninni opnum örmum í stað þess að agnúast út í hana,“ segir Kári.
Hann segir það hafa verið mistök af sinni hálfu að munnhöggvast við Sigmund og „draga með því athyglina frá því sem máli skiptir sem er að heilbrigðiskerfi landsins er í rusli og við þurfum að veita miklu meira fé til þess.“
Hann segir vanta ný og betri tæki og lyf, fleira fagfólk og betra húsnæði.
„Við þurfum að losna við biðlistana og við þurfum að koma sjúklingum af göngum inn á sjúkrastofur. Við þurfum að minnka það hlutfall af kostnaði af heilbrigðisþjónustu sem sjúklingar greiða úr eigin vasa. Það er fáránlegt að sjúklingar sem koma meiddir eða sjúkir inn á slysavarðstofu þurfi að byrja á því að draga upp kreditkort,“ segir Kári enn fremur og bætir við að hann telji sig og Sigmund sammála um þetta.
„Þess vegna bendi ég þér á þann möguleika að skrifa undir og fá síðan tækifæri til þess að verða sá forsætisráðherra sem endurreisir heilbrigðiskerfi landsins. Sameiginleg velferð þjóðarinnar allrar hlýtur að sitja í fyrirrúmi.“
Sjá pistilinn í heild hér að neðan.