„My name is Sven“

Frá Héraðsdómi Suðurlands.
Frá Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is

Verulega létti yfir andrúmsloftinu í dómsal í máli Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar þegar breskur réttarsálfræðingur gaf skýrslu nú síðdegis. Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar, sem hafði byrjað á að tala við vitnið á ensku kallaði það Davíð og kynnti sig með orðunum „My name is Sven“ við mikla kátínu sakborninga og lögmanna.

Réttarsálfræðingurinn David Cook bar vitni í gegnum síma og bar meðal annars að sálfræðiskýrsla íslenskra sérfræðinga um atferli Annþórs og Barkar á myndbandsupptökum fyrir dauða samfanga þeirra, Sigurðar Hólm Sigurðssonar, á Litla-Hrauni árið 2012 væri algerlega óáreiðanleg.

Gögnin sem skýrslan byggir á séu ekki fullnægjandi til að leggja mat á hegðun tvímenninganna og aðferðafræðin sé ekki í samræmi við þekktar aðferðir. Þá sé vel þekkt að við skoðun sem þessa sé hætta á því sem er nefnt staðfestingarvilla (e. confirmation bias) þar sem rannsakandi leitar og finnur atriði sem staðfesta fyrirframgefna kenningu.

Túlkur sá um að færa spurningar og svör yfir á íslensku en það vafðist aðeins fyrir Sveini, verjanda Barkar. Hann byrjaði á að ávarpa sérfræðinginn á ensku en var fljótlega bent á að hann ætti að tala íslensku. Vatt Sveinn þá kvæði sínu algerlega í kross og kallaði vitnið „Davíð“ upp á íslensku.

„Ég tek þetta alla leið,“ sagði Sveinn við mikla kátínu sakborninganna, saksóknara og dómara.

Ekki þyngdist brún viðstaddra þegar Sveinn hélt áfram og kynnti sig með orðunum „My name is Sven“.

Högg þurfti ekki að skilja eftir sig mar

Áður hafði læknir sem stjórnaði endurlífgunaraðgerðum á Sigurði í fangelsinu borið vitni um að mögulegt væri að milta gæti rofnað við átökin sem fylgdu hjartahnoði. Hann hafi ekki haft neina sjáanlega ytri áverka. Kenning ákæruvaldsins er sú að blæðing úr milta sem högg eða spark sem Annþór og Börkur veittu Sigurði hafi dregið hann til dauða.

Hann staðfesti þó að höggi sem ylli innvortis meiðslum þyrfti ekki að skila eftir sig útvortis áverka og það væri vel þekkt. Þá sagðist hann með engu móti geta metið hvort að nægilegt blóðflæði hafi getað verið úr milta Sigurðar á meðan endurlífgunartilraunir stóðu yfir á honum til að styðja kenningu verjendanna um að miltað hafi rofnað við þær.

Verkfræðingur sem er sérfræðingur í kraftfræði kom einnig fyrir dóminn og sagði að niðurstöður athugunar hans fyrir lögreglu hafi verið sú að mögulegt fall í fangaklefanum hafi ekki getað skýrt innvortis sár hans án þess að valda frekari áverkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert