Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarráði, segir að meirihluti ráðsins hafi ákveðið að kaupa ekki þjónustukönnun Gallup, sem mælir viðhorf íbúa til 19 stærstu sveitarfélaganna, vegna þess að borgin hafi fengið falleinkunn í síðustu könnunum.
„Ég varð þess áskynja fyrir stuttu að bæði Garðabær og Seltjarnarnes hafa birt á sínum heimasíðum niðurstöður úr þjónustukönnun Gallup. Þar eru 19 stærstu sveitarfélög landsins tekin fyrir en ég hef ekkert séð um þetta hjá Reykjavíkurborg. Þess vegna lagði ég fram spurningu um að upplýsingar um þetta yrðu lagðar fram eftir viku á næsta borgarráðsfundi,“ segir Halldór.
Garðabær lenti í fyrsta eða öðru sæti í níu spurningum af þrettán í könnuninni sem var framkvæmd seint á síðasta ári. Þar voru íbúar spurðir um afstöðu þeirra til ólíkra þátta í þjónustu síns sveitarfélags.
Reykjavík kom verst allra sveitarfélaga út í þjónustukönnun Gallup sem var lögð fram í borgarráði í fyrra. Samkvæmt könnuninni fékk borgin lökustu einkunn í svörum við átta spurningum af tólf og var hún í öllum tilfellum undir meðaltali í samanburði við hin sveitarfélögin.
Frétt mbl.is: Reykjavík rekur lestina
Frétt mbl.is: Útreið borgarinnar sögð hrakaleg
„Svo frétti ég eftir fundinn að Reykjavík hefði ákveðið að kaupa ekki þessa þjónustukönnun núna. Ég er sannfærður um að það var ákveðið því hún hefur komið mjög illa út fyrir þennan meirihluta. Hann er að reyna að forðast óþægilegt umtal út af þessari könnun,“ segir Halldór.
„Ég hefði haldið að allir sem hafa metnað myndu taka svona könnun og kryfja hana og velta fyrir sér hvort það er hægt að gera betur í staðinn fyrir að sniðganga hana. Þetta er gullið tækifæri til að heyra skoðanir íbúanna.“
Gallup gefur ekki upplýsingar um hvaða sveitarfélög kaupa könnunina. Sömu sveitarfélög voru mæld í ár og í fyrra, þar á meðal Reykjavík, og öllum stendur þeim til boða að kaupa niðurstöður mælingarinnar.