Lögreglumaður bar að Sigurður Hólm Sigurðsson hefði sagt sér að hann hefði stungið Annþór Karlsson með sprautunál vegna kúgunartilburða hans og Barkar Birgissonar gegn sér, í Héraðsdómi Suðurlands í dag. Annþór sagði frásögnina haugalygi og efaðist um að Sigurður hefði nokkru sinni sagt þetta við lögreglumanninn.
Verjendur Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar voru afar ósáttir við að lögreglumaður fengi að bera vitni í máli þeirra en þeir töldu framburð hans sögusögn. Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar á Litla-Hrauni árið 2012. Þeir voru einnig ósáttir við að upplýsingaskýrsla sem lögreglumaðurinn skrifaði eftir dauða Sigurðar hafi ekki skilað sér til þeirra jafnvel þó að hún væri í gögnum málsins.
Þegar lögreglumaðurinn kom fyrir dóminn sagðist hann hafa spurt Sigurð út í samskipti sín við Börk og Annþór þegar hann ók honum frá lögreglustöðinni á Hverfisgötu um einum og hálfum mánuði fyrir dauða hans. Játti Sigurður því að þeir félagar hefðu reynt að kúga hann til að fremja innbrot fyrir sig, mögulega til að greiða skuld við sig.
Eftir að hann hefði stungið Annþór með sprautunál sem hann fullyrti að væri sýkt hafi þeir Börkur hins vegar látið hann í friði. Annþór hafi í kjölfarið spurt Sigurð ítrekað að því hvort nálin hefði raunverulega verið sýkt.
Samskipti lögreglumannsins við verjendur voru fremur stirð þegar þeir spurðu hann út í framburðinn. Brást lögreglumaður oft illa við spurningunum og voru verjendurnir hvassir í garð hans. Verjandi Annþórs spurði lögreglumanninn til dæmis hvort hann hefði sérstakan áhuga á þeim Berki. Sagðist lögreglumaðurinn ekki hafa hann umfram á öðrum.
Eins spurði verjandinn hvort að lögreglumaðurinn hafi ekki talið ástæðu til að hefja frumkvæðisrannsókn á þeirri alvarlegu líkamsárás sem Sigurður virtist hafa játað á sig. Lögreglumaðurinn sagðist ekkert hafa vitað um sannleiksgildi frásagnarinnar og það hafi verið Annþórs að kæra árásina.
„Þú sást samt ástæðu til að skrifa sérstaka upplýsingaskýrslu um þetta?“ spurði verjandinn.
„Já, eftir að Sigurður Hólm var dáinn gerði ég það,“ svaraði lögreglumaðurinn.
„Þetta er haugalygi frá upphafi til enda,“ sagði Annþór þegar hann gaf aftur skýrslu eftir framburð lögreglumannsins.
Hefði hann talið sig smitaðan eftir sprautunál hefði hann leitað á sjúkrahús til að láta kanna það. Það hefði hann hins vegar aldrei gert og hægt væri að sannreyna það í sjúkraskýrslum hans.
Sagðist hann jafnframt efast stórlega um Sigurður hefði nokkurn tímann sagt þetta við lögreglumanninn. Hann hefði oft lent í því að lögreglumenn lygju upp á hann þó að hann kynni engin deili á þessum tiltekna lögreglumanni.
Börkur bar einnig að frásögn lögreglumannsins væri þvæla.